Þessu greinir hún frá í samtali við fréttastofu. Hún segir langt vera síðan hún hafi komist að þessari niðurstöðu og að hún hafi gefið sér góðan tíma til að melta hana. Hana langi að leita á ný mið en skilur við þingflokkinn í sátt.
„Það er bara svo margt sem mig langar að gera. Það er ekki flóknara,“ segir hún.
Arndís segist ekki vera hætt að vinna með Pírötum og að hún muni leggja hönd á plóg í innra starfinu áfram. Hún segist einnig vera spennt fyrir komandi kosningum og að þær skipti hana töluverðu máli þó svo að hún hafi ekki starfið undir þeim.
„Þetta er búið að vera skemmtilegt starf og mikilvægt og þetta er gríðarlega mikilvæg hreyfing sem ég vinn fyrir. Ég finn fyrir að það er að koma svo mikið að góðu fólki inn hjá okkur og það er óhætt að skapa rými fyrir nýja krafta núna og ég er spennt fyrir því sem koma skal,“ segir hún.
Aðspurð segist hún stefna aftur í lögmennsku.