Einkaskilaboð Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar sem hún sendi til hugsanlegs kjósanda flokksins sem fóru í dreifingu í gær hafa vakið athygli.
Í skilaboðunum segir Kristrún Dag B. Eggertsson, formann borgarráðs og fyrrverandi borgarstjóra, vera í aukahlutverki, en hann skipar annað sæti á lista á eftir henni í Reykjavík. Þá bendir hún á að það sé hægt að strika út nafn Dags á kjörseðli.
„Það er náttúrlega óheppilegt fyrir Kristrúnu að þessar ráðleggingar hennar um að strika Dag út hafi verið birtar opinberlega en í því eru samt engin tíðindi, því að þegar einhver segir við forystumann að hann vilji ekki kjósa lista flokksins út af einhverjum tilteknum frambjóðanda þá segja menn yfirleitt alltaf: Þú getur strikað hann út. Það er þinn lýðræðislegi réttur. Þetta er í rauninni engin frétt,“ sagði Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Sjá einnig: Úthugsuð strategía eða alvarlegt reynsluleysi hjá Kristrúnu
Í skilaboðum Kristrúnar kom einnig fram að Dagur verði ekki ráðherra, komist Samfylkingin í ríkisstjórn.
„Hins vegar vekur athygli að hún segir að Dagur sé ekki ráðherraefni. Það kemur kannski pínulítið á óvart af því að Dagur hefur náttúrulega gríðarlega mikla reynslu úr borgarstjórninni og sérstaklega vekur athygli að hann er búinn að halda saman meirihlutum þar, ólíkum meirihlutum, í fjórtán ár. Ef Samfylkingin fer í ríkisstjórn eftir kosningar þá er líklegt að það verði ríkisstjórn þriggja til fjögurra flokka og maður hefði kannski ætlað að reynsla Dags kæmi þar að góðu gagni,“ sagði Ólafur.
Hann sagði þó að það hvort Dagur væri ráðherraefni eða ekki, virtist það hafa verið gert í samráði við hann. Ekki virtist neinn ágreiningur innan flokksins um útspil Kristrúnar.
„Sem kemur mér kannski aðeins á óvart.“