Orra óstöðvandi-bækurnar hafa unnið Bókaverðlaun barnanna fimm ár í röð og eru ávallt meðal mest selda bóka landsins á hverju ári. Nú eru bækurnar orðnar sjö talsins og sú nýjasta, Orri óstöðvandi: Heimsfrægur á Íslandi, kemur út síðar í þessum mánuði.
„Frá því ég settist niður til að skrifa fyrstu Orra-bókina, þá hef ég alltaf séð Orra óstöðvandi fyrir mér í sjónvarpi. Ég var því himinlifandi yfir þeim jákvæðu viðbrögðum sem ég fékk frá Republik og Stöð 2 þegar ég kynnti verkefnið fyrir þeim. Sú jákvæða stemning hefur heldur betur smitast yfir í handritsteymið, og skrifin hafa gengið vonum framar. Ég held að það sé óhætt að segja að þættirnir verði rosalegir - enda ekki við öðru að búast þegar snillingarnir Sveppi og og Karen Björg er í handritshópnum,“ er haft eftir Bjarna Fritzssyni, höfundi Orra óstöðvandi, í tilkynningu.
Eva Georgs Ásudóttir, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, segir að stöðin hafi ætíð lagt mikinn metnað í að bjóða upp á fjölbreytt framboð af íslensku og talsettu barnaefni.
„Við erum í skýjunum með að vera hluti af þessu spennandi verkefni og að Orri óstöðvandi sé að lifna við á skjánum. Við á Stöð 2 höfum sett okkur metnaðarfulla stefnu í framleiðslu á íslensku barnaefni af öllu tagi og við hlökkum mikið til þess að færa áhorfendum leikna þætti um Orra óstöðvandi,“ segir hún.
Stöð 2 og Vísir eru í eigu Sýnar.