Rúnar Páll tekur við Gróttu í 2. deild því liðið féll niður úr Lengjudeildinni í ár. Christopher Brazell, sem hafði stýrt Gróttu frá 2022, var rekinn frá félaginu í sumar og Igor Bjarni Kostic stýrði Gróttu til loka tímabilsins, en liðið endaði í 11. sæti, tíu stigum á eftir næstu liðum.
Grótta lék í Bestu deildinni í fyrsta og eina sinn árið 2020 en er nú komin aftur í 2. deild þar sem liðið spilaði síðast árið 2018. Ljóst er að Rúnari Páli er ætlað að koma liðinu sem fyrst aftur upp í Lengjudeildina.
Rúnar er meðal annars með það á ferilskránni að hafa gert Stjörnuna að Íslandsmeistara árið 2014, og komið liðinu í 4. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar sama ár, auk þess að gera liðið að bikarmeistara árið 2018.
Hann stýrði síðast liði Fylkis í þrjú ár og kom því upp í Bestu deildina á fyrsta ári en þaðan féll liðið svo í haust.
„Ætlum ekki að stoppa lengi í 2. deild“
„Ég er mjög spenntur fyrir verkefninu og hlakka til að byrja að vinna með strákunum og kynnast fólkinu í félaginu. Grótta hefur staðið sig vel í uppbyggingu síðustu ár en nú hefst ný vegferð hjá karlaliðinu. Við ætlum ekki að stoppa lengi í 2. deild en vitum að baráttan verður bæði hörð og skemmtileg,” segir Rúnar Páll í fréttatilkynningu Gróttu.
Þorsteinn Ingason, formaður knattspyrnudeildar Gróttu, tekur í sama streng og fagnar komu Rúnars:
„Það er óhætt að segja að við séum himinlifandi með komu Rúnars Páls á Nesið. Við reyndum eftir fremsta megni að vanda til verka við ráðningu á nýjum þjálfara enda eru mikilvægir tímar framundan hjá karlaliði Gróttu - við ætlum okkur aftur upp í Lengjudeildina en um leið byggja upp lið sem getur gert sig gildandi þar á næstu árum. Með Rúnari kemur mikil orka og drifkraftur og við hlökkum til að fylgjast með honum aðlagast og setja sinn svip á Gróttusamfélagið.”