Kennarar við Menntaskólann í Reykjavík lögðu niður störf í dag og eru verkfallsaðgerðir nú í gangi í tíu skólum.
„Það er náttúrulega lítil starfsemi hérna í dag en við höfum samt hvatt nemendur til þess að koma og hittast og læra saman ef þeir vilja eða bara fá félagslegan stuðning. Þetta bitnar auðvitað á náminu þeirra en þetta bitnar ekki síst á félagslega þættinum og við verðum aðeins að hafa það í huga að skóli er líka griðastaður nemenda og það kom alveg berlega í ljós í Covid að það eru ekkert allir sem að geta verið heima hjá sér heilu og hálfu dagana,“ segir Sólveig Guðrún Hannesdóttir, rektor Menntaskólans í Reykjavík.
„Það er eins og enginn viti neitt“
Nokkrir nemendanna nýttu sér það að mæta í skólann í dag til að læra. Nemendurnir hafa áhyggjur af því hvaða áhrif verkföllin hafa á nám þeirra. Þá segjast þeir líka sakna vinanna þegar enginn er skólinn.
„Mér finnst líka leiðinlegt að það sé svona mikil óvissa með þetta allt og maður veit ekki hvort að verkfallið detti niður og það verði ekkert verkfall og maður mæti í jólapróf. Það er eins og enginn viti neitt,“ segir Ægir Þór Þorvaldsson, nemandi við Menntaskólann í Reykjavík.
Nemendur þreyttir á skólaleysi
Þá hittust nemendur við Fjölbrautaskóla Suðurlands á samstöðufundi í dag. Skólastarf hefur legið niðri við skólann í þrjár vikur vegna verkfallsaðgerða kennara. Nemendurnir segjast orðnir þreyttir á verkfallinu og vilja komast aftur í skólann sem fyrst.
„Þetta var gott í tvær vikur en síðan er maður orðinn svolítið svona vill fara að klára skólann. Vill fara að klára þetta sem fyrst,“ segir Birkir Hrafn Eyþórsson ,nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Samninganefndir kennara og ríkis og sveitarfélaga funda á morgun klukkan eitt í Karphúsinu. Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann hafi fundað með forystufólki samninganefndanna um helgina og að þar hafi skref verið tekin í rétta átt.