Fagnaðarlæti brutust út á COP29 í Bakú í Aserbaídsjan í nótt, þegar samkomulag náðist loks um fjárveitingu þróaðra ríkja til þróunarríkja, til aðstoðar þeim síðarnefndu í baráttu við loftslagsvána. Laura Sólveig Lefort Scheefer, hringrásafulltrúi Ungra umhverfissinna, hefur verið á ráðstefnunni í Bakú síðustu tvær vikur og fylgdist með því þegar tilkynnt var um hið langþráða samkomulag.
„Þetta var mjög skrýtin stemning og mikið klappað en á sama tíma voru líka ákveðin ríki sem réttu hendurnar upp og settu í kross, svona neitunarmerki.
Þetta var hádramatískt?
„Mjög.“
Blendnar tilfinningar og kaos
Sæst var á þrjú hundruð milljarða framlag á ári, sem Lauru sjálfri finnst ekki ganga nógu langt. Þróunarríkin höfðu farið fram á 1,3 billjónir dala.
„Sumum finnst þetta frábært og söguleg stund, öðrum finnst þetta ofboðslega leiðinlegt eða jafnvel hrokafullt gagnvart ríkjum sem koma verst úti úr hlýnun jarðar og áhrifum hennar.“
Uppþot varð á ráðstefnunni í gær, þegar fulltrúar þróunarríkjanna strunsuðu margir út af fundi vegna óánægju með upphæðina sem þá var á borðinu.
„Þetta var svakalegt, það var rosa mikið af látum og mjög mikil mótmæli á svæðinu. Meira að segja fólkið sem var á vegum umhverfisráðuneyta mismunandi landa vissi jafnmikið og við. Það vissi enginn hvað var í gangi.“
Skandall á ráðstefunni í ár
Laura bendir á að í samkomulaginu felist ekki bein skuldbinding fyrir þróuðu ríkin. Hún segir mikilvægt að ráðstefnur á borð við þessa séu áfram haldnar en brýnt sé að endurskoða fyrirkomulagið. Síðustu ár hafi þær í æ auknari mæli orðið vettvangur fyrir fyrirtæki að auglýsa sig.
„Það hefur einmitt verið talað um þennan skandal í ár að lobbýistar fyrir jarðefnaeldsneytisiðnaðinn eru hér í massavís, mun fleiri þaðan en þau sem eru hér á vegum tíu fátækustu ríkja í heiminum,“ segir Laura, sem heldur loks heim á leið frá Bakú á morgun.