Bananaplantan þrífst vel inn í húsnæði Á.B. kranaleigunnar þar sem eigandi plöntunar og kranastjóri hugsar um hana af mikilli natni. En hver er saga plöntunnar?
„Ætli það séu ekki komin einhver átta ár, sem að ég og maðurinn minn, einu sinni sem oftar voru á Kanaríeyjum. Svo erum við að fara sem sagt heim á flugvellinum er oft hægt að kaupa eins og kaktusa og eitthvað blómadót til að taka með heim. Það er búið að pakka þessu spes inn og svoleiðis og svo sé ég bananaplöntu og hugsa, það væri gaman að tjékka á þessu,” segir Margrét Erla Júlíusdóttir bananaræktandi og kranastjóri í Hafnarfirði en búsett í Kópavogi.

Margrét keypti plöntuna og flutti heim í Kópavoginn þar sem hún býr og setti plöntuna í pott en bjóst aldrei við að plantan myndi lifa. En vitið menn, hún óx og óx þannig að Margrét ákvað að flytja hana í lausa stíu í hesthúsinu sínu þannig að plássið yrði nóg en nei, það dugði ekki heldur, vaxtarhraðinn var svo mikill, þannig að nú nýtur plantan sín vel í iðnaðarhúsnæðinu þar sem hún getur vaxið til allra átta.
„Þetta er bara mjög gaman, bara ótrúlega gaman að vera með þetta hérna á Íslandi, það er bara engin sem trúir þessu að maður sé bara með þetta hérna í Hafnarfirði,” segir Margrét hlæjandi.
Sérstök gróðurljós lýsa á plöntuna og Margrét er dugleg að vökva hana, taka dauð blöð í burtu og þá segist hún tala mikið við plöntuna og klappa henni, það sé mikilvægt atriði.

„Þetta er önnur uppskeran, sem er að koma núna, þannig að hér er allt að gerast,” bætir Margrét við.
Ekki var hægt að smakka á bönönunum því þeir eru enn svo óþroskaðir en þeir verða orðnir gulir og fínir um jólin.
Þannig að það verða bananajól og bananasplitt hjá þér og fjölskyldunni um jólin eða hvað?
„Heldur betur, það verða bananar í eftirrétt.”
