Flugmenn í Fisfélagi Reykjavíkur nýttu góðar aðstæður á Hafravatni í dag og æfðu lendingu og flugtak á ísi lögðu vatninu.

Óli Öder meðlimur í félaginu segir að vatnið sé oft notað af félagsmönnum þegar aðstæður henta.
„Við erum Íslendingar og þá verðum við að prófa við að lenda á ís. Nú eru kjöraðstæður, ísinn er 10-15 sentimetra þykkur og þolir þar að leiðandi um þriggja tonna þyngd. Við mældum þykktina í gær,“ segir Óli.
Hann segir að sjaldan skapist aðstæður eins og í dag þar sem ísinn er nánast spegilsléttur því frosið hefur á vatninu í logni.

„Við gátum leikið okkur á ísnum í dag vegna frábærra aðstæðna og keyrðum í hringi á vélunum,“ segir Óli.
Náttúruskautafólk nýtti sér aðstæðurnar
Á svellinu var líka fólk sem fer víða um heim til að skauta í náttúrulegum aðstæðum. Í þeirra hópi var Ari Hultqvist sem er skautakennari hjá sænska ferðafélaginu. Hann kom ásamt félögum sínum í vikunni til landsins því veðurspá til skautaiðkunnar var með besta móti í frostinu síðustu daga. Hópurinn var búinn að skauta á vötnum og sjó við Stokkseyri, Sólheimalón, Kerið, , Elliðavatn, Reynisfjöru og Apavatn. Ari vill gjarnan halda skautanámskeið fyrir náttúruunnendur hér á landi.
„Ég held reglulega námskeið á öllum stigum. Nú síðast í Finnlandi. Mig langar að halda námskeið hér á landinu. Ég skautaði samtals um fjögur þúsund kílómetra á síðasta ári sem fáir hafa leikið eftir,“
Ari segir að við náttúrulegar aðstæður sé mikilvægt að vera með réttan búnað ef svo illa fer að ísinn gefur sig.

„Við erum alltaf með öryggisbúnað með okkur þannig að ef við lendum í sjó eða vatni þá fljótum við hálf upp úr en sökkvum ekki alveg. Þá erum við með línu sem hægt er að kasta upp úr,“ segir Ari.