Í tilkynningu frá mennta- og barnamálaráðuneytinu segir að framkvæmdir séu nú að hefjast á 2.654 fermetra nýbyggingu sem ætluð er fyrir húsasmíði, rafvirkjun og listgreinar sem muni stórauka aðgang að starfs- og verknámi á höfuðborgarsvæðinu.
Það voru Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Páll Daníel Sigurðsson framkvæmdastjóri Eyktar sem undirrituðu samninginn í matsal Fjölbrautaskólans í morgun og voru fyrstu skóflustungurnar teknar þar sem nýbyggingin mun rísa.

Verktakafyrirtækið Eykt annast framkvæmdina. Kostnaður er 1,8 milljarðar króna og skiptist milli ríkis (60%) og borgar (40%).
„Fjölbrautaskólinn í Breiðholti er elsti fjölbrautaskóli landsins, stofnaður 1975. Stefna skólans er að leggja jafna áhersla á bók-, list- og verknám og mæta þannig námsþörfum og áhugasviði ólíkra nemenda.

Fjöldi nemenda stundar nám í húsasmíði (332) og rafvirkjun (412) við FB jafnt í dagskóla sem kvöldskóla. Með flutningi rafvirkjadeildar í hið nýja húsnæði og stórbættri aðstöðu fyrir kennslu í húsasmíði og myndlist verður stuðlað að frjóu samlífi verknáms og listnáms í skólanum þar sem kennsla ungmenna fer fram á daginn og kennsla fullorðinna á kvöldin.
Skólinn styrkist sem lifandi vettvangur fjölbreytts mannlífs í hjarta Breiðholtsins,“ segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.


