„Við setjum ekki líf og limi fólks í hættu til að flytja kjörgögn,“ segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi. Gulum veðurviðvörunum er spáð á Austurlandi og víðar. Óvíst er hvort hægt verði að vera með kjörfundi.
Hann sé þó búinn að hafa samband við alla kjörstjóra og stefna þau öll á að vera með kjörfund. Versta sviðsmyndin sé sú að fresta þurfi kjörfundi og þá yrði kosið á sunnudag.
Kristín Edwald, formaður Landskjörstjórnar, segir í samtali við fréttastofu að ef að kjörfundi yrði frestað yrði talningu atkvæða á öllu landinu frestað. Ekki megi byrja að telja atkvæði fyrr en að öllum kjörfundum hefur verið lokað.
„Líklegt að það dragist vegna færðar“
Atkvæðin fyrir Norðausturkjördæmi eru talin á Akureyri. Atkvæði frá Vopnafirði eru keyrð upp strandlengjuna. Atkvæðin frá Austurlandi er safnað saman á Egilsstöðum og flogið með þau til Akureyrar.
„Það er mjög líklegt að það spillist eitthvað og dragist vegna færðar,“ segir Gestur.
Oftast séu atkvæðin á leið frá Egilsstöðum til Akureyrar um klukkan tvö um nótt. „Mér sýnist eins og staðan er núna að það verði ekki fyrr en á sunnudaginn, miðjan dag á sunnudag ef þessi spá gengur eftir eins og hún er,“ segir Gestur.
Áhersla á að halda kjörfundi
Þar sem að ekki er hægt að telja atkvæðin fyrr en að öllum kjörfundum er lokið leggur Gestur áherslu á að halda kjörfundi.
„Þetta er fólk sem þekkir þessi veður og vant að ferðast innan héraðs í svoleiðis veðri,“ segir hann.