Í umfjöllun danska ríkisútvarpsins kemur fram að kaupin muni nema 32 milljörðum danskra króna eða því sem nemur rúmlega 625 milljörðum íslenskra króna. Þar segir ennfremur að horft verði til þess að minnka eignarhlutinn til lengri tíma í 50,1 prósent, ríkið haldi þar með meirihluta sínum.
Flugvöllurinn er skráður á danska hlutabréfamarkaðinn og fer ríkið með rétt rúmlega fjörutíu prósenta hlut, lífeyrissjóðir rest. Fjármálaráðherra Danmerkur Nicolai Wammen segir að kaupin séu til þess fallin að treysta rekstrargrundvöll flugvallarins, sem gegni mikilvægu innviðahlutverki í Danmörku.
Fram kemur í frétt DR að samtök atvinnulífs í Danmörku hafi fagnað kaupunum. Hlutabréf í vellinum hafa hækkað um tæplega helming eftir að kaupin voru tilkynnt.