Grímur kveður lögregluna eftir 37 ára starf en hann var kjörinn á þing í nýafstöðnum Alþingiskosningum. Hann var þriðji maður á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður og eftir spennandi kosninganótt varð ljóst að Grímur næði inn á þing.
Grímur hefur verið áberandi sem andlit lögreglunnar í stórum sakamálum undanfarinn tæpan áratug. Með brotthvarfi hans er ljóst að það verður nýr fulltrúi lögreglu sem kemur fram fyrir hennar hönd í slíkum málum. Næstu vikur og jafnvel mánuði verða Ásgeir Þór Ásgeirsson og Theodór Kristjánsson í því hlutverki.
Ásgeir Þór segir í samtali við Vísi að hann taki að sér skipulagða brotastarfsemi, ofbeldismál, fjármunabrot og kynferðisbrotamál. Stoðdeildirnar, sem einnig heyrðu undir Grím, lenda hjá Theodór. Um er að ræða tæknideild og tölvurannsókna- og rafeindadeild.

„Fyrir mér er þetta bara tækifæri til að kafa betur ofan í einn hluta embættisins sem ég hef ekki gert áður,“ segir Ásgeir Þór. Hann hlakkar til að setjast niður með nýjum yfirmanni á rannsóknarsviði en samstarfið við Grím hafi verið afar gott og farsælt.

Elín Agnes Kristínardóttir og Ævar Pálmi Ævarsson, aðstoðaryfirlögregluþjónar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafa leitt deildirnar undanfarnar vikur í fjarveru Gríms. Elín Agnes verið yfir skipulagðri brotastarfsemi og Ævar Pálmi yfir rannsóknum á kynferðisbrotum. Telja má líklegt að þau verði meðal umsækjenda um starfið sem er sem fyrr segir til reynslu í eitt ár.