Streymisveitan birti í dag sinn árlega lista yfir þá listamenn og þau lög sem notendur hlustuðu mest á árinu. Listinn hefur verið kenndur við Wrapped og geta notendur streymisveitunnar nú skoðað sína eigin lista auk þess sem topplistar hafa verið birtar á streymisveitunni.
Unwritten með endurkomu
Á lista yfir mest spiluðu lögin á heimsvísu árið 2024 kennir ýmissa grasa. Þar eru bæði gömul lög og ný en Sabrina Carpenter trónir eins og áður segir á toppnum með lag sitt Espresso auk þess sem lag hennar Please Please Please er einnig á lista.
Þá er Beautiful Things með Benson Boone í öðru sæti listans og svo er Birds of a Feather með Billie Eilish í því þriðja. Athygli vekur að lagið Unwritten með Natöshu Bedingfield nær á lista yfir mest spiluðu lögin en lagið kom út árið 2004. Skýringuna má finna í því að lagið gegndi stóru hlutverki í kvikmyndinni Anyone but You sem sló í gegn á fyrri hluta árs.
Á lista yfir mest spiluðu listamenn ársins í heiminum trónir Taylor Swift á toppnum auk Post Malone. Þá er þar einnig að finna The Weeknd, Bad Bunny, Drake, Billie Eilish, Travis Scott, Peso Pluma, Kanye West, Ariönu Grande og Feid.
Kunnugleg nöfn á íslensku listunum
Á íslenska listanum eiga fáir séns í þá félaga Patrik og Luigi en Skína er langmest spilaða lag landsins á Spotify. Þar á eftir kemur Beautiful Things með Benson Boone. Herra Hnetusmjör er svo í þriðja sæti með Koss á þig, laginu úr Áramótaskaupinu í fyrra.
Aron Can er einnig á listanum yfir mest spiluðu lögin með MONNÍ, einnig Háski og Patrik með Hvert ertu að fara auk þess sem Iceguys og ClubDub komast rétt á topp tíu með lög sín Krumla og bad bitch í RVK.
Á lista yfir mest spiluðu listamennina á Íslandi er Kanye West efstur en fast á hæla hans koma Bubbi Morthens og Herra Hnetusmjör. Taylor Swift er þar líka, auk Drake, Travis Scott og Daniil og Arons Can. Á listanum eru svo að sjálfsögðu þekkt íslensk nöfn eins og Friðrik Dór, ClubDub, GDRN, Floni og Jói Pé og Króli.