Þetta skrifar veðurfræðingur Veðurstofu Íslands á vefsíðu stofnunarinnar og varar við óþarfa flækingi á morgun. Katrín Agla Tómasdóttir veðurfræðingur segir ekkert ferðaveður víðast hvar á landinu á morgun en bendir á að verst verði veðrið á Norðvesturlandi.
Búið er að gefa út appelsínugular veðurviðvaranir fyrir morgundaginn fyrir Breiðafjörð, Vestfirði og Strandir og Norðurland vestra. Gular veðurviðvaranir taka einnig gildi á morgun víðast hvar á landinu.
„Það er spáð miklum vindhraða. Mesti vindurinn verður á norðvestanverðu landinu. Þar getur vindhraðinn náð 28 metrum á sekúndu í meðalvindhraða. Svo hlýnar ört með þessari sunnan átt og seinni partinn fer að rigna all hressilega og þá eru líka líkur á asahláku á sunnan- og vestanverðu landinu.“
Það verði hvasst og mikil úrkoma á höfuðborgarsvæðinu á morgun þó að það sé ekki búið að gefa út veðurviðvörun fyrir svæðið. Katrín segir þó að íbúar á svæðinu megi huga að niðurföllum.