Handbolti

Haukarnir hoppuðu upp töfluna og HK vann fallslaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skarphéðinn Ívar Einarsson og félagar í Haukaliðinu voru ekki í miklum vandræðum í kvöld.
Skarphéðinn Ívar Einarsson og félagar í Haukaliðinu voru ekki í miklum vandræðum í kvöld. Vísir/Anton

Lið Hauka og HK fögnuðu sigri í leikjum sínum í Olís deild karla í handbolta í kvöld.

Haukarnir hækkuðu sig upp um tvö sæti með sextán marka útisigri á ÍR, 43-27.

Haukar fóru upp fyrir Fram og Val en þeir sitja í þriðja sætinu eftir leikinn í kvöld. Haukar eru með 18 stig en fyrir ofan þá eru FH með 21 stig og Afturelding með 19 stig. Þau eiga bæði leik til góða.

Hergeir Grímsson skoraði tíu örk og Skarphéðinn Ívar Einarsson var með sex mörk. Baldur Fritz Bjarnason skoraði þrettán mörk en það dugði ekki til.

HK græddi á tapi ÍR og komst fjórum stigum á undan Fjölni með sjö marka sigri á Grafarvogsliðinu í Kórnum, 30-23

HK er með tveggja stiga forskot á ÍR í síðasta örugga sætinu í deildinni.

HK-ingar hafa unnið tvo leiki og náð í fimm af tíu stigum sínum í síðustu fjórum leikjum. Þetta var sjötta deildartap Fjölnisliðsins í röð.

HK var með þriggja marka forystu í hálfleik, 15-12.

Leó Snær Pétursson skoraði átta mörk fyrir HK og Andri Þór Helgason var með fimm mörk. Jovan Kukobat varði 14 skot. Gunnar Steinn Jónsson skoraði sjö mörk fyrir Fjölni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×