Karen Friedman-Agnifilo, sem bættist í verjandahóp Mangione í vikunni, er nefnilega gift Marc Agnifilo, sem hefur farið fyrir máli Combs síðastliðið ár.

Það eru því hjón sem fara fyrir tveimur af stærstu málum ársins. Enn á þó eftir að rétta í báðum málum, réttarhöld yfir Diddy eru dagsett 5. maí 2025 og sennilega verður réttað yfir Mangione seinna á næsta ári.
Þurfti að segja sig frá málum vegna eiginmannsins
Friedman-Agnifilo á nokkuð fjölbreyttan lögmannsferil. Hún vann í sjö ár fyrir umdæmissaksóknara New York-sýslu, leiddi síðan kynferðisbrotadeild embættisins í fjögur ár áður en hún söðlaði um 2021 og fór að starfa sem sjálfstæður lögmaður.
Hún gekk í ár til liðs við lögmannsstofu eiginmanns síns, Agnifilo Intrater LLP, sem var stofnuð í mars 2024.

Hjónaband Karen við Marc var henni stundum til trafala þar sem hún þurfti oft að segja sig frá málum þar sem maður hennar var verjandi, þar á meðal í máli Harvey Weinstein.
Marc Agnifilo vann einnig fyrir umdæmissaksóknara í New York-sýslu, nema á tíunda áratugnum. Frá 2006 til 2024 vann hann á lögmannsstofunni Brafman & Associates áður en hann stofnaði sína eigin stofu.