Á vef Veðurstofunnar segir að skjálftinn hafi fundist bæði í Lundarreykjadal og á Akranesi.
Fram kemur að þetta sé líklega stærsti skjálftinn á svæðinu frá upphafi mælinga.
Eftirskjálftar hafa mælst og mældist sá stærsti 2,6 að stærð. Síðast mældist skjálfti yfir 3,0 að stærð á svæðinu þann 7. október 2021.
Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir í samtali við fréttastofu að eitthvað hafi einnig verið um eftirskjálfta nú í morgunsárið. „Þetta er stærsti skjálftinn frá upphafi mælinga eða frá því að skjálftakerfi var okkar var tekið í notkun 1991.“
Hann segir að um sé að ræða skjálfta á mjög miklu dýpi og séu þeir ekki taldir tengjast eldgosavirkni eða neinu slíku. „Það hefur ekkert gosið á þessu svæði síðan á landnámsöld og var það aðeins vestar,“ segir Bjarki.