Þetta kemur fram í umfjöllun Page Six þar sem Flaa segist hafa deilt gömlu viðtali sínu við leikkonuna frá árinu 2016 einfaldlega vegna þess að hún hafi verið nýbúin að sjá myndina. Í viðtalinu var Lively afar óþægileg við Flaa og virtist bregðast hin versta við þegar Flaa óskaði henni til hamingju með óléttuna.
Greint var frá því um helgina að Lively hefði lagt fram kvörtun gegn Baldoni og hefði nú í undirbúningi lögsókn gegn honum fyrir meint kynferðislegt áreiti og áróðursherferð sem hún segir Baldoni hafa blásið til í þeim tilgangi að rústa orðspori hennar. Markmiðið hafi verið að sverta ímynd hennar og grafa undan trúverðugleika hennar, að sögn Lively ef ske kynni að hún myndi gera ásakanir sínar opinberar.
Blaðamaðurinn Flaa segist hafa verið í áfalli að frétta af málinu. Það hafi verið tilviljun að hún hafi rifjað upp sitt viðtal á sama tíma og Baldoni hafi staðið fyrir þessari meintu áróðursherferð.
„Ég birti myndbandið eftir að hafa séð myndina...mér líkaði ekki við hana. Ég átti slæma reynslu af samskiptum við Blake Lively og á þessum tíma hafði ég fengið nóg af Hollywood þannig að ég hafði ekki lengur áhyggjur af því að verða slaufað, þannig ég ákvað að birta þetta myndband.“
Flaa segir myndbandið af viðtalinu tala sínu máli. Lively hafi verið óþægileg þar óháð máli þeirra Baldoni. Fregnir af málinu bárust strax í ágúst þegar Baldoni og Lively tóku þátt í markaðsstarfi vegna myndarinnar í sitthvoru lagi.