Erlent

Lýsti yfir sak­leysi sínu

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Luigi Mangione, maðurinn sem er grunaður um að hafa ráðið Brian Thompson forstjóra UnitedHealthcare bana.
Luigi Mangione, maðurinn sem er grunaður um að hafa ráðið Brian Thompson forstjóra UnitedHealthcare bana. EPA/CURTIS MEANS

Luigi Mangione, maðurinn sem er grunaður um að hafa ráðið Brian Thompson forstjóra UnitedHealthcare bana þann fjórða desember, lýsti sig í dag saklausan í málinu fyrir dómstól í New York. 

Mangione kom fyrir dómstól í dag en hann hefur verið ákærður af alríkissaksóknurum fyrir 11 glæpi, þar á meðal manndráp og hryðjuverk, en einnig fyrir að sitja um Thompson og að nota ólöglegan hljóðdeyfi þegar hann skaut hann. Fréttastofa BBC greinir frá.

Fjöldi fjölmiðlafólks var viðstaddur í dómsalnum en einnig margt ungra kvenna, sem sagðist vera þar til að sýna Mangione stuðning. Verði hann fundinn sekur um öll ákæruatriði á Mangione yfir höfði sér fangelsisdóm til lífstíðar, án þess að möguleiki væri á reynslulausn.

Brian Thompson, forstjóri UnitedHealthcare, var skotinn til bana fyrir utan hótel á Manhattan-eyju í New York-borg, 4. desember, þar sem Thompson var að halda árlega fjárfestaráðstefnu. Mangione er gefið að sök að hafa skotið hann til bana og flúið vettvang á hjóli í Central Park-almenningsgarð.

Mangione fannst loks á McDonald‘s stað í Altoona í Pennsylvaníu-ríki um fimm dögum síðar þar sem hann var handtekinn og færður í skýrslutöku. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×