
The Brutalist var valin besta dramamynd ársins og Emilia Pérez besta myndin í flokki gaman- og söngleikjamynda. Þá hlaut Peter Straughan verðlaun fyrir besta handritið fyrir Conclave og Viola Davis heiðursverðlaunin sem kennd eru við Cecil B. DeMille.
Brody var verðlaunaður fyrir leik sinn í The Brutalist, Zaldana fyrir besta leik í aukahlutverki í Emilia Pérez og Culkin fyrir besta leik í aukahlutverki í myndinni A Real Pain.
Fernanda Torres, sem var verðlaunuð fyrir frammistöðu sína í I'm Still Here, vann óvæntan sigur en aðrar leikkonur sem tilnefndar voru fyrir leik í aðalhlutverki í dramamynd voru Angelina Jolie, Nicole Kidman, Tilda Swinton, Kate Winslet og Pamela Anderson.
Torres er fyrsta brasilíska leikkonan til að vinna til verðlaunanna í umræddum flokki en í þakkarræðu sinni minntist hún þess að fyrir 25 árum hefði móðir hennar, Fernanda Montenegro, nú 95 ára, verið tilnefnd til Golden Globe fyrir hlutverk sitt í Central Station.

Montenegro, sem var einnig tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir umrætt hlutverk, kemur einnig fram í I'm Still Here, sem persóna Torres á efri árum.
Demi Moore þótti hins vegar flytja eina bestu ræðu kvöldsins, þar sem hún benti á að þetta væri í fyrsta sinn sem hún ynni til verðlauna sem leikkona á yfir 40 ára ferli. Moore var verðlaunuð fyrir hlutverk sitt í myndinni The Substance, sem hefur vakið bæði athygli og óhug.
Þegar kemur að sjónvarpsþáttum var Jodie Foster verðlaunuð fyrir frammistöðu sína í þáttunum True Detective: Night Country og Jeremy Allen White fyrir hlutverk sitt í The Bear. Þá var Colin Farrell verðlaunaður fyrir The Penguin og Jessica Gunning fyrir Baby Reindeer.