Neytendur

Mælir ekki með „TikTok-sparnaðar­leiðunum“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi er hugsi varðandi sparnaðarráð á TikTok.
Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi er hugsi varðandi sparnaðarráð á TikTok.

Margir setja sér markmið um sparnað og tiltekt í heimilisbókhaldinu um áramótin en allur gangur er á því hvernig gengur að halda það út og ná markmiðum sínum. Fjármálaráðgjafinn Björn Berg Gunnarsson mælir meðal annars með sjálfvirkum sparnaðarleiðum, niðurgreiðslu neysluskulda og að safna í neyðarsjóð en bendir á sparnaðarráð sem ná flugi á samfélagsmiðlum séu ekki alltaf heppilegustu kostirnir.

Björn Berg var til viðtals í Brennslunni á FM957 í morgun þar sem rætt var vítt og breytt um sparnaðarráð, heimilisbókhald, fjárfestingar og skiplag fjármálanna í byrjun árs. Viðtalið í heild sinni má finna í spilaranum hér að neðan.

Björn bendir á að ólíkt heilsuræktarkortum, þar sem fólk gjarnan kaupir árskort snemma en heldur það síðan ekki út að mæta allt árið, þá séu til auðveldar leiðir til að halda áfram að spara pening út árið.

Sjálfvirkar leiðir árangursríkari

„Það sem við höfum sem er aðeins öðruvísi varðandi sparnaðinn er að það er ekkert mál að tryggja að maður haldi þetta út. Það er það að fólk er að skrá þetta sjálfvirkt. Þess vegna hef ég svolítið verið að reyna kannski að fæla fólk frá því að vera að fara í TikTok-sparnaðraleiðirnar,“ segir Björn og vitnar þar í hinar og þessar sparnaðarleiðir sem hafi náð flugi á samfélagsmiðlum.

„Það er allveg skemmtilegt og það er tónlist á bakvið og maður peppast upp og ætlar að gera þetta. En eiginlega allar þannig leiðir eru þannig að maður þarf sjálfur að muna eftir einhverju, annað hvort daglega eða einu sinni eða tvisvar í mánuði. Og það er ekki finnst mér neitt vit í því þegar við eigum sjálfvirkar leiðir.“

Fólk geti verið fljótt að missa dampinn og að réttlæta fyrir sér að forsendur séu búnar að breytast og hinar og þessar ástæður tíndar til til þess að útskýra fyrir sjálfum sér að það sé enginn peningur aflögu suma mánuði til að leggja fyrir í sparnað vegna annarra útgjalda. „Ef að við erum ekki að líta á sparnað sem reikning, sem er bara skuldfærður eins og símareikningurinn, þá erum við ekki að fara að halda þetta út,“ segir Björn.

Að mörgu að huga

Þáttarstjórnandi benti á að nú væru vextir tiltölulega háir sem bjóði upp á ágætis ávöxtun á sparnaðarreikningum. Björn var spurður hvaða sparnaðarráð hann myndi gefa þeim sem eru að byrja að spara.

„Þetta þarf ekkert að vera svo flókið en ég myndi svolítið láta þetta ráðast eftir því í hvaða aðstæðum við erum,“ svaraði Björn. Í fyrsta lagi borgi sig að skoða að greiða hraðar upp neysluskuldir á borð við yfirdrátt, greiðslukortadreifingu, bílalán og fleira í þeim dúr. „Byrja á að borga það upp, það er þá sparnaðurinn. Af því að í alvöru talað, það hefur ekkert upp á sig að vera að safna inn á einhverja bók ef þið eruð með yfirdrátt,“ segir Björn.

Ef sparnaðurinn er hugsaður til skamms tíma, til dæmis sem hugsað er til að eiga fyrir kostnaði um næstu jól, borgi sig að leggja inn á besta óverðtryggða bankareikninginn sem er á boðstólum. Nokkuð mikið framboð sé af slíkum sparnaðarreikningum hjá íslenskum bönkum og fjármálafyrirtækjum.

Neyðarsjóður frekar en neyslulán

Þá mælir Björn sérstaklega með því að byrja að leggja til hliðar í svokallaðan neyðarsjóð. „Neyðarsjóður þýðir það að þið munuð aldrei, vonandi, aftur á ævinni þurfa að koma nálægt neinum neyslulánum,“ segir Björn. Neyslulán séu einhver mesti skaðvaldurinn í heimilisbókhaldinu. „Ég tek þá bara lán hjá sjálfum mér og svo bara skila ég þeim peningum seinna."

Ef meiningin er að spara til lengri tíma, til dæmis til að safna fyrir íbúð eða hafa hug á að stækka við sig eftir einhver ár, séu margir sem leggi fyrir í einhvers konar sjóði. „Það er líka hægt að gera það sjálfvirkt. Þá erum við með eitthvað sem að hentar ekki til skamms tíma en hentar rosa vel til langtíma af því að ávöxtunin getur orðið miklu meiri,“ segir Björn.

Þá séu hvað hæstir vextir á innlánsreikningum sem eru bundnir í einhvern tíma sem geti sérstaklega nýst þeim sem vilja leggja til hliðar sparnað til lengri tíma.

Íslendingar langt á eftir öðrum í öllum samanburði

Aðspurður segir Björn að sparnaður í gegnum fjárfestingar sé nokkuð vannýtt leið sem nýst gæti fleirum. „Það hefur svolítið aukist en við erum langt á eftir öllum löndum sem við berum okkur saman við í öllum samanburði þegar kemur að fjárfestingum einstaklinga. Eiginlega alveg sama hvað við skoðum, við erum á eftir,“ segir Björn.

Helsta ástæðan sé sennilega sú að reynsla Íslendinga sé „rosalega stutt og rosalega slæm.“

Þá sé íslenski markaðurinn mjög lítill og það sé dýrt að fjárfesta í hlutabréfum út fyrir landssteinina, sem væri ákjósanlegt að gera til þess að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni. „Það að fjárfesta út fyrir landsteinana er aðeins dýrara og örlítið meira vesen heldur en víðast hvar annars staðar,“ segir Björn.

Þá hafi reynslan af hruninu haft sitt að segja. Íslenskur almenningur hafi ekki lært almennilega að fjárfesta á sínum tíma upp úr aldamótum og reynslan úr hruninu hafi ekki verið góð hvað varðar fjárfestingar.

„Síðan verður það þannig að enginn hefur áhuga í fleiri fleiri ár á hlutabréfum fyrr en í aðdraganda covid þegar vextir byrja að lækka og það er ekki hægt að fá neitt annars staðar. Og það sem við lærum í covid er svo óheilbrigt, sem er það að allt bara hækki. Þá fer allt í gang og þá eru samfélagsmiðlarnir orðnir mjög ráðandi í því að kenna fólki á fjárfestingar og alveg ofboðslega óábyrgt,“ segir Björn Berg. Miklivægt sé að vera upplýstur og læra um fjárfestingar með því að prófa sig áfram og æfa sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×