Innlent

Deilan í al­gjörum hnút

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Kennarar fylltu stóra sal Háskólabíós á baráttufundi í nóvember.
Kennarar fylltu stóra sal Háskólabíós á baráttufundi í nóvember. Vísir/Anton Brink

Kjaradeila kennara og ríkis og sveitarfélaga er í algjörum hnút og óvíst hvenær sest verður aftur við samningaborðið. Formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga segir deiluna helst stranda á launakröfum kennara.

Verkfallsaðgerðum kennara var frestað í lok nóvember að tillögu Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara. Samningsaðilar gáfu sér tvo mánuði til að vinna að nýjum kjarasamningum. Síðan þá hafa samningsaðilar fundað stíft en fyrir helgina var ákveðið að gera hlé á kjaraviðræðunum. Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga segir óvíst um framhaldið.

„Síðustu vikurnar höfum við verið í mjög góðri og þéttri vinnu með kennurum. Sérstaklega Félagi grunnskólakennara. Síðan á föstudaginn var haldinn stór fundur með öllum félögunum því þau hafa haldið fast saman í sinni kjarabaráttu og þá svona kom í ljós að þau voru ekki sátt við stöðuna. Þannig að fundum var frestað núna um einhvern tíma á meðan við erum að átta okkur á því hvernig við höldum þessu áfram.“

Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga segir óvíst hvenær sest verður aftur við samningaborðið.Vísir/Ívar Fannar

Inga segir mörg mál enn óleyst í deilunni en helst strandi deilan á launakröfum kennarar sem séu miklar. 

Ef ekki nást samningar fyrir mánaðarmótin hefjast verkfallsaðgerðir kennara á ný.

„Ég vona að þetta verði ekki nú ekki langt stopp. Við þurfum að halda áfram að tala saman. Þannig það kemur bara í ljós á allar næstu dögum hvernig þessu verður áfram haldið og hvaða möguleika við sjáum í stöðunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×