Innlent

Hand­ritin öll komin á nýja heimilið

Atli Ísleifsson skrifar
Flutningurinn gekk hratt og vel fyrir sig og voru handritin flutt yfir Suðurgötu með aðstoð lögreglu.
Flutningurinn gekk hratt og vel fyrir sig og voru handritin flutt yfir Suðurgötu með aðstoð lögreglu. Sigurður Stefán Jónsson

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur nú flutt öll handrit, sem hún hefur til varðveislu, í nýtt öryggisrými í Eddu við Arngrímsgötu 5.

Um er að ræða um tvö þúsund handrit, 1.345 fornbréf og um sex þúsund fornbréfauppskriftir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Árnastofnun. Þar segir að fáein handrit hafi verið flutt í nóvember síðastliðinn vegna sýningarinnar Heimur í orðum sem var opnuð á degi íslenskrar tungu í Eddu. Nú í vikunni voru svo öll önnur handrit og fornbréf flutt í Eddu.

„Flutningurinn gekk hratt og vel fyrir sig og voru handritin flutt yfir Suðurgötu með aðstoð lögreglu.

Handritastofnun Íslands eignaðist nokkur handrit á sjöunda áratug síðustu aldar þegar hún var til húsa í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Árið 1970 flutti stofnunin í nýtt hús við Suðurgötu sem fékk nafnið Árnagarður.

Sigurður Stefán Jónsson

Fyrstu handritin sem voru flutt frá Kaupmannahöfn samkvæmt samningi milli Íslands og Danmerkur um skiptingu handritasafns Árna Magnússonar komu 1971 og var stofnunin þá kennd við Árna. Einnig komu um 140 handrit úr Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Flutningur handritanna frá Kaupmannahöfn tók 26 ár.

Sigurður Stefán Jónsson

Í Árnagarði voru handritin geymd við ágætar aðstæður, en nú er þeirri sögu lokið. Þegar Árnastofnun sameinaðist fjórum öðrum stofnununum árið 2006 var ákveðið að byggja nýtt hús fyrir þessa nýju stofnun með góðri aðstöðu til að sýna handritin en einnig til að varðveita þau við bestu aðstæður. Handritasafn Árna Magnússonar var sett á skrá UNESCO yfir minni heimsins árið 2009,“ segir í tilkynningunni.

Sigurður Stefán Jónsson

Sigurður Stefán Jónsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×