Innlent

Andrés Ingi ráðinn fram­kvæmda­stjóri DÍS

Atli Ísleifsson skrifar
Andrés Ingi Jónsson sat á þingi frá 2016 til 2024.
Andrés Ingi Jónsson sat á þingi frá 2016 til 2024. DÍS

Andrés Ingi Jónsson, fyrrverandi þingmaður, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Dýraverndarsambands Íslands (DÍS) og hefur hann þegar hafið störf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn DÍS. Þar segir að Andrés Ingi búi yfir víðtækri þekkingu og reynslu á vettvangi stjórnmála. 

„Hann var þingmaður Pírata frá árinu 2021, þingmaður Vinstri grænna á árunum 2016-2019 og sat þess á milli sem þingmaður utan þingflokka. Andrés Ingi er með meistaragráðu í alþjóðastjórnmálum frá háskólanum í Sussex.

Sem þingmaður hefur Andrés Ingi beitt sér ötullega fyrir málefnum mannréttinda, umhverfisverndar og dýravelferðar sem stjórn DÍS horfði sérstaklega til við ráðningu hans sem framkvæmdastjóra sambandsins. Framkvæmdastjóri DÍS ber ábyrgð á daglegum rekstri sambandsins, fjáröflun, stefnumótun í samstarfi við stjórn og kemur fyrir hönd DÍS í opinberri umræðu,“ segir í tilkynningunni. 

Um DÍS segir að um séu að ræða óháð landssamtök sem beiti sér fyrir bættri velferð dýra. Sambandið standi vörð um lögvernd dýra og stuðli að góðri lagasetningu og reglubundnu opinberu eftirliti til verndar dýrum. DÍS var stofnað þann 13. júlí 1914 og fagnaði því 110 árum á síðasta ári.

„Við bjóðum Andrés Inga hjartanlega velkominn og hlökkum til samstarfsins. Starf Dýraverndarsambandsins hefur verið að vaxa á undanförnum árum, vitund almennings er sífellt að aukast og verkefnum að fjölga, þannig að við sjáum mikil tækifæri í því að styrkja félagið á næstu misserum,“ er haft eftir Lindu Karenu Gunnarsdóttur, formanni Dýraverndarsambands Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×