Erlent

Játaði að hafa myrt þrjár ungar stúlkur í Sout­hport

Kjartan Kjartansson skrifar
Blóm, blöðrur og minningarorð um fórnarlömb árásarinar í Southport.
Blóm, blöðrur og minningarorð um fórnarlömb árásarinar í Southport. AP/Darren Staples

Átján ára gamall karlmaður játaði að hann hefði stungið þrjár ungar stúlkur til bana og sært tíu aðra í árás í Southport á Englandi þegar réttarhöld hófust yfir honum í morgun. Hann viðurkenndi einnig að hafa eitrið rísín og bækling frá hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda í fórum sínum.

Stunguárásin í Southport þar sem árásamaður réðst á stúlkur sem voru á Taylor Swift-dansnámskeiði varð kveikjan að óeirðum víða á Englandi og Norður-Írlandi vegna lygasagna sem fóru á flug um að ódæðismaðurinn væri hælisleitandi sem hefði verið nýkominn til Bretlands með bát yfir Ermarsund. 

Axel Rudakubana, sem er sonur innflytjenda frá Rúanda og fæddist í Wales, játaði óvænt sekt þegar hann kom fyrir dóm í Liverpool í morgun. Stúlkurnar þrjár sem hann stakk til bana voru sex, sjö og níu ára gamlar. Þá særði hann átta aðrar stúlkur á aldrinu sjö til þrettán ára ásamt leiðbeinanda þeirra og manni sem reyndi að stöðva árásina.

Dómari sagði Rudakubana geta átt yfir höfði sér lífstíðardóm þegar dómur verður kveðinn upp á fimmtudag. Verjandi hans segist ætla að leggja fram gögn um geðheilsu Rudakubana sem gætu haft áhrif á niðurstöðuna. Sjálfur hefur Rudakubana neitað að tjá sig fyrir dómi.

Saksóknarar og lögregla hafa ekki sagt hvað hún telur að Rukdakubana hafi gengið til. Hann hafi ekki verið ákærður fyrir hryðjuverk vegna þess. Nokkrum mánuðum eftir að hann var handtekinn var hann ákærður fyrir að framleiða rísín og vörslu á leiðarvísi í tölvu sinni sem var talinn geta nýst þeim sem ætlaði sér að fremja hryðjuverk, að sögn AP-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir

Báru eld að miðstöð fyrir hælisleitendur

Enn er allt á suðupunkti víða um Bretland vegna óeirða og mikilla mótmæla, leidd af hægri öfgamönnum. Mótmælin beinast að komu hælisleitenda til Bretlands. Í dag báru mótmælendur í Rotherham eld að hóteli sem hýsir hælisleitendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×