Bjarki hefur verið í minna hlutverki en undanfarin ár þar sem Orri Freyr Þorkelsson hefur farið mikinn á mótinu til þessa.
Nú er útlit fyrir að Bjarki spili ekki meira því hann er með rifu í vöðva aftan í hnésbótinni, og verður frá í einhvern tíma, samkvæmt tilkynningu frá HSÍ.
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari hefur því kallað í sinn gamla lærisvein úr Val, Stiven Tobar Valencia, sem kemur inn í íslenska hópinn í dag.
Stiven var í landsliðshópi Snorra á EM fyrir ári síðan, ásamt Bjarka, en Orri var þá ekki með.
Stiven, sem er 24 ára gamall, spilar í Portúgal líkt og Orri en hann er á sínu öðru ári með Benfica á meðan að Orri er leikmaður Sporting Lissabon.
Ísland mætir Króatíu í afar mikilvægum leik klukkan 19:30 í kvöld og svo Argentínu á sunnudag klukkan 14:30, í lokaumferð milliriðlakeppninnar.