„Ef einhver barber/klippari er að fara að mæta á milliriðlana máttu endilega senda mér skilaboð,“ segir Viktor í sögu sinni á Instagram fyrir þremur dögum síðan.
Það stóð ekki á svörum og segir sagan að þónokkrir hafi boðið fram krafta sína. Ægir Líndal var hins vegar þegar mættur til borgarinnar og með hárgreiðslusettið með sér.
„Ég var alltaf að fara að klippa Þorstein Leó uppi á hóteli, hann er góður vinur minn, það var alltaf planið. Svo setti Viktor þetta í story hjá sér á Instagram og ég fékk svona 70 skilaboð frá fólki að ég ætti að klippa hann,“ segir Ægir í samtali við Vísi. Hann klippti einhverja í liðinu einnig í Munchen í fyrra.
„Svo ég svaraði Viktori og sagði honum að ég gæti klippt hann þegar ég kæmi að hitta Þorstein,“ segir Ægir.
Þeir voru alls átta sem fengu klippingu á hóteli landsliðsins í gær. Auk Þorsteins Leó og Viktors Gísla munu þeir Orri Freyr Þorkelsson, Elliði Snær Viðarsson, Ýmir Örn Gíslason, Elvar Örn Jónsson, Óðinn Þór Ríkharðsson og Viggó Kristjánsson mæta nýklipptir og spengilegir til leiks gegn Króötum í kvöld.
Ægir spilaði lengi handbolta með Aftureldingu en þjálfar nú yngri flokka liðsins, venslaliðið Hvíta riddarann og heldur auk þess utan um samfélagsmiðlaefni handboltaliðsins.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, starfar sem leikgreinandi fyrir Dag Sigurðsson hjá króatíska landsliðinu. Ægir segir það muni ekki hafa áhrif.
„Það hefur ekki áhrif á strákana. Þeir vinna þetta með fjórum,“ spáir Ægir fyrir kvöldið.
Ísland mætir Króatíu klukkan 19:30 í kvöld fyrir fullri höll í Zagreb en uppselt er á leikinn. Strákunum okkar verður fylgt vel eftir fram að leik og honum lýst beint á Vísi.