Tilskipanirnar varða meðal annars afnám allra DEI aðgerða í hernum, það er að segja aðgerðir er varða fjölbreytni, jafnrétti og inngildingu, eins og hefur verið gert í stjórnkerfinu öllu. Þá fjallaði ein tilskipunin um útrýmingu „kynjaöfgahyggju“ innan hersins.
Tilskipunin hefur ekki verið birt en er talin varða trans fólk. Trump lýsti því yfir í fyrri forsetatíð sinni að hann hygðist banna trans fólk innan hersins; fókusinn þyrfti að vera á „ákveðnum og afdráttarlausum sigri“ án íþyngjandi lækniskostnaðar og annars álags vegna trans hermanna.
Þá fyrirskipaði forsetinn í gær að allir þeir hermenn sem voru látnir fjúka fyrir að neita að gangast undir bólusetningu gegn Covid-19 fái stöður sínar á ný.
Alþjóðasamvinna í uppnámi
En stjórnvöld vestanhafs gerðu annað og meira en að setja hernum þrengri skorður í gær. Starfsmönnum sóttvarnastofnunarinnar (CDC) var meðal annars fyrirskipað að hætta samstundis öllu samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina.
Ákvörðunin er sögð munu setja fjölda verkefna á erlendri grundu í uppnám, sem meðal annars varða útbreiðslu hættulegra sjúkdóma í Afríku.
Öll erlend neyðaraðstoð er einnig í uppnámi en fjöldi starfsmanna U.S.Aid var settur í leyfi í gær, vegna gruns um að þeir hefðu unnið að því að komast framhjá tilskipun forsetans um stöðvun verkefna.
Þá var fjölda saksóknara sagt upp, sem eiga það sameiginlegt að hafa unnið að rannsókn mála gegn Trump í stjórnartíð Joe Biden. Sögðu yfirvöld að umræddum einstaklingum væri ekki treystandi til að fylgja eftir stefnu núverandi forseta.