Upp­gjörið: Haukar - Þór Þorl. 99-100 | Fyrsti útisigur Þórs í þrjá mánuði

Andri Már Eggertsson skrifar
Jordan Semple og félögum í Þór hefur gengið mjög illa á útivelli undanfarina mánuði.
Jordan Semple og félögum í Þór hefur gengið mjög illa á útivelli undanfarina mánuði. Vísir/Jón Gautur

Þórsarar unnu Hauka í bráðfjörugum leik. Eftir þrjá leikhluta benti lítið til þess að Haukar myndu koma til baka en heimamenn komust yfir þegar innan við mínúta var eftir og úr varð æsispennandi leikur. Þórsarar unnu að lokum með minnsta mun 99-100.

Þetta var fyrsti sigur Þórs Þorlákshafnar á útivelli síðan 24. október á síðasta ári. 

Leikurinn fór vel af stað og það var jafnræði með liðunum. Leikmenn beggja liða voru að hitta vel til að byrja með og liðin skiptust á körfum.

Heimamenn áttu fyrsta höggið í dag þegar liðið datt í gang um miðjan fyrsta leikhluta. Haukar hittu nánast úr öllu og Þórsarar réðu illa við fjölbreyttan sóknarleik heimamanna. Haukar unnu síðustu fimm mínúturnar 21-8 og gerðu samtals 37 stig í fyrsta leikhluta sem þykir ansi mikið.

Gestirnir úr Þorlákshöfn svöruðu fyrir sig í öðrum leikhluta og gerðu ellefu stig í röð og komust yfir um miðjan annan leikhluta 45-48. Þórsarar héldu áfram að hamra járnið á meðan það var heitt og unnu annan leikhluta 15-33. Gestirnir voru sex stigum yfir í hálfleik 52-58.

Þriðji leikhluti fór af stað líkt og annar leikhluti spilaðist. Þórsarar voru sterkari á báðum endum vallarins og eftir fjórar mínútur tók Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Hauka, leikhlé í stöðunni 58-69. Spilamennska Hauka batnaði og heimamenn náðu að koma muninum undir tíu stig fyrir fjórða leikhluta.

Það var ótrúleg spenna í fjórðaleikhluta. Þegar innan við tvær mínútur voru eftir gerðu Haukar sjö stig í röð og komust yfir 95-94 þegar um 40 sekúndur voru eftir. Það var síðan Nikolas Tomsick sem gerði sigurkörfuna en hann skildi örfáar sekúndur eftir af klukkunni en Haukar áttu ekki leikhlé og Þór vann að lokum 99-100.

Atvik leiksins

Sigurkarfa Nikolas Tomsick var atvik leiksins. Þórsarar voru einu stigi undir og höfðu tapað þremur leikjum með þremur stigum eða minna á þessu ári en létu það ekki á sig fá og kláruðu þennan jafna leik með sigri.

Stjörnur og skúrkar

Nikolas Tomsick var sjóðandi heitur í dag og byrjaði með látum. Tomsick gerði 20 stig í fyrri hálfleik á tæplega 16 mínútum. Þrátt fyrir að Tomsick hafi aðeins gert átta stig í seinni hálfleik gerði hann mikilvægustu körfu leiksins og reyndist hetja Þórs.

Jordan Semple var einnig öflugur í liði Þórs og endaði með tvöfalda tvennu. Semple gerði 26 stig og tók 10 fráköst. 

Everage Lee Richardson, leikmaður Hauka, gerði aðeins 7 stig í kvöld og tapaði 4 boltum. Með hann inni á vellinu töpuðu Haukar þeim mínútum með 21 stigi. 

Dómararnir [7]

Dómarar leiksins voru Kristinn Óskarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson og Sigurbaldur Frímannsson.

Kristinn þurfti ekki að blása leikinn af að þessu sinni líkt og á föstudaginn og í staðinn blés hann alltaf á hárréttum tíma í flautuna á samt Eggerti og Sigurbaldri sem dæmdu þennan leik vel.

Stemning og umgjörð 

Leikurinn átti að fara fram á föstudaginn en var frestaður vegna leka í þaki. Miðað við leiktíma og það að leikurinn átti að vera spilaður á föstudagskvöldi var mætingin nokkuð góð og fólkið sem mætti lét í sér heyra sérstaklega undir lokin. 

„Erfitt að kyngja svona töpum“

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Hauka var svekktur eftir leik.Vísir/Arnar Halldórsson

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Hauka, var svekktur eftir eins stigs tap gegn Þór 99-100. 

„Það er erfitt að kyngja svona töpum en þau koma. Ég var ánægður með hvernig við komum inn í leikinn og fyrri hluti fyrri hálfleiks var mjög góður svo misstum við tökin á þessu í öðrum leikhluta og í þriðja leikhluta virtist þetta vera að fjara út en ég var mjög ánægður með hvernig við komum til baka og einfölduðum hlutina,“ sagði Friðrik Ingi og hélt áfram. 

„Við náðum að tengja nokkrar körfur við nokkur stopp og hægt og rólega náðum við tökum á leiknum og mér fannst við líklegri í restina en þetta var jafnt á öllum tölum undir það síðasta og sigurinn gat dottið hvoru megin en það var þeirra megin núna.“

Aðspurður út í síðustu mínútu leiksins og hvort eitthvað hefði mátt betur fara var Friðrik ekki með neitt ákveðið í huga beint eftir leik.

„Örugglega er hægt að finna eitthvað en ég á eftir að skoða það. Þetta er sárt fyrir alla en við hefðum komist upp úr fallsæti með því að landa þessum sigri og það ætluðum við að gera en við frestum því um viku,“ sagði Friðrik Ingi að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira