Gular og appelsínugular veðurviðvaranir hafa verið í gildi víða um land síðastliðinn sólarhring, með suðaustan og sunnan illviðri fram á morguninn í dag. Björgunarsveitir víða um landið hafa ekki varhluta af veðurofsanum að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
„Gærdagurinn var nokkuð annasamur, það voru fimmtán útköll í gær en í morgun hefur þetta verið aðeins rólegra,“ segir Jón Þór.
Bát rak upp í hafnargarðinn
Útköllin hafa verið af ýmsum toga, allt frá Vestfjörðum og austur á firði.
„Það var kallað út í morgun, Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík vegna beitningarskúrs þar sem þakplötur voru að losna af og björgunarsveitin Gerpir á Norðfirði var kölluð út vegna báts sem hafði slitnað upp í smábátahöfninni og rekið upp í hafnargarðinn. Það var í raun og veru ekki hægt að gera annað þar heldur en að tryggja hann þar sem hann var og verður hugað að honum betur þegar það lægir og batnar veðrið,“ segir Jón Þór.
Engin slasast
Þá aðstoðuðu björgunarsveitir einnig ferðamenn í vanda.
„Það var kallað út nótt, björgunarsveitir á Héraði vegna fólks sem var í vandræðum í rútu á Fagradal og það voru níu manns sem þurfti að ferja niður á Egilsstaði. Það gekk að mér skilst bara nokkuð vel,“ segir Jón Þór.
Til þessa hafi björgunarsveitir ekki þurft að sinna alvarlegum útköllum þar sem fólk hafi slasast eða verið í hættu.
„Nei sem betur fer ekki og við vonum að svo verði áfram bara.“