Upp­gjörið: FH - Stjarnan 29-29 | Jafnt í Krikanum

Andri Már Eggertsson skrifar
ási anton
vísir/Anton

FH og Stjarnan skildu jöfn í fyrstu umferðinni eftir að HM- og jólafríinu lauk. Leikurinn var jafn og spennandi og það var Hans Jörgen Ólafsson sem gerði síðasta mark leiksins og tryggði Stjörnunni stig. 

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað. Fyrsti leikur eftir langt hlé getur alltaf verið krefjandi og það var smá hrollur í mönnum. Fyrsta markið í leiknum kom eftir tæplega fjórar mínútur.

Eftir tíu mínútna leik voru gestirnir þremur mörkum yfir 2-5 en Jóhannes Berg Andrason skoraði fyrstu þrjú mörk FH-inga.

Eftir því sem leið á fyrri hálfleik jafnaðist leikurinn út og liðin skiptust á mörkum. Þrátt fyrir að Stjarnan skoraði aðeins eitt mark á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiks voru gestirnir yfir í hálfleik 14-15.

FH-ingar byrjuðu síðari hálfleik betur og voru með yfirhöndina. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður fékk Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, nóg og tók leikhlé eftir að Birgir Már Birgisson hafði stolið boltanum og skorað í autt markið. Staðan var þá 23-19.

Garðbæingar voru þó ekki á því að kasta inn hvíta handklæðinu og fóru að saxa á forskot FH-inga. Heimamenn gerðu aðeins tvö mörk á síðustu átta mínútunum og Stjarnan kom til baka og krækti í stig. Það var Hans Jörgen Ólafsson sem steig upp og tryggði Stjörnunni stigið.

Atvik leiksins

Jöfnunarmark Hans Jörgen Ólafssonar var atvik leiksins. Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, tók leikhlé einu marki undir þegar innan við mínúta var eftir. Hans þakkaði traustið og jafnaði með laglegu skoti sem Daníel Freyr Andrésson, markmaður FH, kom engum vörnum við. 

Stjörnur og skúrkar

Hans Jörgen Ólafsson, leikmaður Stjörnunnar, skoraði sex mörk og þar á meðal jöfnunarmarkið. Hann var markahæstur í sínu liði ásamt Benedikt Marínó Herdísarsyni. 

Daníel Freyr Andrésson, markmaður FH, náði sér ekki á strik í kvöld og var aðeins með 8 varin skot og endaði með 22.2% markvörslu.

Dómararnir [6]

Dómarar kvöldsins voru Kári Garðarsson og Magnús Kári Jónsson

Lína dómaranna í kvöld var oft á tíðum óskýr. Það voru nokkrir sérstakir dómar hér og þar og FH-ingar voru ósáttir að hafa ekki fengið víti í síðari hálfleik þegar farið í hendina Ásbjörn Friðriksson. Dómgæslan í kvöld réði þó ekki úrslitum. 

Stemning og umgjörð

Það getur verið krefjandi fyrir félögin að fá áhorfendur aftur á völlinn í fyrsta leik eftir að deildin hefur verið í pásu síðan um miðjan desember. Það var þó ekki raunin í Krikanum þar sem það var vel mætt.

Það var mikið fagnað þegar nýjasti leikmaður FH-inga Einar Sverrisson skoraði sitt fyrsta mark eftir að hafa gengið til liðs við félagið.

„Komum okkur í stöðu til þess að landa þessum leik“

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var svekktur að hafa ekki náð í 2 stig í kvöld Vísir/Anton Brink

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH-inga, var svekktur að hans menn hafi misst leikinn niður í jafntefli eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í seinni hálfleik.

„Þetta var tapað stig. Við fengum eitt stig og verðum að taka það út úr þessu en ég er ósáttur að hafa ekki fengið tvö stig,“ sagði Sigursteinn Arndal og hélt áfram.

„Við vorum frekar slappir fyrstu tíu mínúturnar en náðum ágætis tökum á okkar leik. Það vantaði upp á í vörn og við vorum að misnota dauðafæri. Við komum okkur í stöðu til þess að landa þessum leik og eigum að gera það en við klikkuðum varnarlega síðustu tíu mínúturnar og leystum illa úr þeirra 7 á 6.“

Stjarnan fór að spila með aukamann í sókn sem gerði FH erfitt fyrir en Sigursteinn sagði að það hafi ekki komið á óvart.

„Það kom ekkert á óvart. En það var lélegt að við leystum það ekki betur og við vitum að Stjarnan spilar oft 7 á 6 og gerir það vel en við eigum að geta brugðist við þessu.“

Sigursteini fannst margt óskýrt í dómgæslunni í kvöld og var ekki sáttur með nokkra dóma sem féllu ekki í þá átt sem hann hefði viljað.

„Mér fannst vera misræmi í dómum. Þegar skytta var að fara á milli 1 og 2 fannst mér ekki vera samræmi og mér fannst við fá á okkur ódýr víti á meðan það var ekki þannig hinum megin. Svo fannst mér stórt augnablik þegar Ásbjörn fór inn í dauðafæri og það var slegið í höndina á honum sem hefði átt að vera víti og í framhaldinu fengum við hendina strax upp á okkur sem var galið og ég held að þeir sjái það þegar þeir skoða þetta aftur,“ sagði Sigursteinn Arndal að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira