Íslenski boltinn

Martraðarbyrjun Róberts í Víkingstreyjunni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Róbert Orri Þorkelsson verður frá um hríð.
Róbert Orri Þorkelsson verður frá um hríð. Mynd/Víkingur

Það ætlar ekki af Róberti Orra Þorkelssyni, nýjum leikmanni Víkings, að ganga. Hann meiddist eftir sex mínútur í fyrsta leik og missir af komandi Evrópuævintýri.

Róbert Orri sneri heim úr atvinnumennsku til að semja við Víking fyrir skemmstu. Hann hafði þá lent í ógöngum hjá danska félaginu SönderjyskE, sem fékk hann til Spánar undir þeim forsendum að ganga frá samningum. Samningsboðið barst aldrei og Róbert flaug aftur heim til Íslands og hafði skömmu síðar gengið frá samningum við Víkinga.

Róbert Orri hefur glímt við töluverð meiðsli frá því að hann hélt út í atvinnumennsku árið 2021 og spilaði aðeins 20 leiki á fjórum árum hjá kanadíska liðinu Montreal Impact sem leikur í bandarísku MLS-deildinni. Hann átti fínan tíma með Kongsvinger í Noregi á síðustu leiktíð en óhætt er að segja að hann hafi orðið fyrir áfalli í fyrsta leik með Víkingum.

Róbert Orri fór meiddur af velli eftir aðeins sex mínútna leik er Víkingar mættu HK í Lengjubikarnum í gærkvöld. Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi, staðfesti við 433.is að Róbert Orri hefði tognað og verður því frá um hríð.

Róbert missir því af leikjum Víkings við Panathinaikos í Sambandsdeild Evrópu. Fyrri leikurinn sem telst sem heimaleikur Víkinga fer fram í Helsinki á fimmtudaginn næsta. Víkingar halda utan á þriðjudag.

Liðið sem vinnur einvígið fer í 16-liða úrslit keppninnar.

Leikur Víkings og Panathinaikos er klukkan 17:45 á fimmtudag og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×