Upp­gjörið: Valur - FH 33-26 | Sann­færandi heimasigur á Hlíðar­enda og toppbaráttan herðist

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Úlfar Páll Monsi var markahæstur Valsmanna í kvöld með ellefu mörk, þar af þrjú víti.
Úlfar Páll Monsi var markahæstur Valsmanna í kvöld með ellefu mörk, þar af þrjú víti. vísir / pawel

Valur vann afar sannfærandi sjö marka sigur gegn FH í sextándu umferð Olís deildar karla. 33-26 lokatölur á Hlíðarenda. FH byrjaði betur var með forystuna eftir fimmtán mínútur en um leið en eftir það voru Valsmenn með öll völd á vellinum. Nú munar aðeins einu stigi milli liðanna, FH á toppnum með 23 stig en Valur í fjórða sæti með 22 stig. 

Leikurinn fór hægt af stað, með löngum og hægum sóknum hjá báðum liðum. FH gekk betur í svoleiðis spili og leiddi með þremur mörkum þegar stundarfjórðungur var liðinn.

Greinileg þreytumerki hjá gestunum

Þá vöknuðu Valsmenn, keyrðu upp hraðann og tóku völdin á vellinum. Vörn Valsmanna stóð vel gegn greinilega þreyttum FH-ingum, eftir áttatíu mínútna leikinn í Eyjum um helgina. 

Að sama skapi voru Valsmenn alltaf snöggir að snúa vörn í sókn og refsuðu hratt fyrir hver einustu mistök sem gestirnir gerðu, og ekki var skortur á þeim.

Á sjö mínútna kafla í fyrri hálfleik sneru Valsmenn stöðunni úr 4-7 í 10-8. 

FH tókst einhvern veginn að halda í þann tveggja marka mun í fyrri hálfleik, sem endaði 16-14, en í seinni hálfleik drógust þeir enn lengra aftur úr.

Valsvörnin gerði sóknarleik FH-inga mjög staman. vísir / pawel
Andri Finnsson var afar öflugur á línunni. vísir / pawel
Garðar Ingi Sindrason komst lítið áleiðis. vísir / pawel
Ógnarsterk Valsvörn. vísir / pawel

Áhorfendur biðu eftir áhlaupi sem aldrei kom

Áhorfendur biðu og biðu allan seinni hálfleik eftir áhlaupi frá FH en orkan og ákefðin í liðinu var lítil sem engin.

Sköpunargleðin var ekki til staðar í sókninni og Björgvin Páll lék sér við að verja skot úr slökum færum. Vörnin var lengi að skila sér og Valsmenn skoruðu fullt af ódýrum mörkum.

Spennan var því engin síðustu mínúturnar, mest munaði átta mörkum en sjö marka sigur Vals varð niðurstaðan.

Viktor Sigurðsson með mark úr erfiðu færi. vísir / pawel
Alexander Peterson sneri aftur í lið Vals eftir fjarveru í síðustu leikjum. vísir / pawel
Valsmenn fagna sigrinum í leikslok. vísir / pawel

Viðtöl

„Ég nenni ekki að nota einhverjar þreytuafsakanir… við settum bara of lítið í þetta“

Sigursteinn Arndal var ekki sáttur á svip þegar hann horfði á sína menn í seinni hálfleik.vísir / pawel

„Bara arfaslök frammistaða. Vorum ekkert spes í fyrri hálfleik, bara einhvern veginn ekki nógu mikill kraftur, samt inni í leiknum. En það sem við buðum upp á í seinni hálfleik var langt frá okkar standard,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, fljótlega eftir leik.

„Það var lítil innistæða fyrir því sem við vorum að reyna að gera í dag. Ég nenni ekki að nota einhverjar þreytuafsakanir, við eigum alltaf að geta fundið orku í svona leik og við reyndum að rúlla liðinu. En við settum bara of lítið í þetta, það var of lítill hugur á bakvið það sem við vorum að reyna að gera,“ hélt hann svo áfram.

Þetta var þriðji leikur FH á einni viku eftir að handboltinn hófst aftur eftir HM. Jafntefli gegn Stjörnunni í síðustu viku og svo lenti FH í svakalegum slag gegn ÍBV um helgina. Tvíframlengdur bikarleikur sem endaði með sigri ÍBV í vítakastkeppni.

Heldurðu að það hafi setið í mönnum?

„Það má vel vera, en eins og ég segi getum við ekki notað afsakanir, það hjálpar engum. Við þurfum bara einfaldlega að gera betur, ná fram betri frammistöðu.“

Það gefst fínt tækifæri til þess í næstu viku þegar FH mætir Fjölni, neðsta liði deildarinnar.

Hvernig leggst það í þig?

„Akkúrat núna leggst það bara ekkert vel í mig en það er bara verkefnið. Fjölnir er búið að gera mjög góða hluti í vetur og við þurfum miklu betri frammistöðu og betri leik til að fá eitthvað út úr hlutunum þar,“ sagði Sigursteinn að lokum.

Óskar Bjarni: Framfaramerki hjá liðinu og skemmtilegt að vera með í toppbaráttu

Óskar Bjarni hefur stýrt sínum mönnum til sigurs í báðum leikjunum eftir að deildin hófst aftur.vísir / pawel

„Frábært að vinna FH og við erum að blanda okkur aðeins í toppbaráttuna aftur, sem er mjög gott,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, fljótlega eftir leik.

„Það var margt ágætt í dag, varnarleikur, margir að taka af skarið sóknarlega, Bjöggi góður, mér fannst bara fín orka í okkur,“ sagði hann svo um frammistöðu sinna manna.

Leikurinn fór hægt af stað en eftir fimmtán mínútur gáfu Valsmenn í og litu ekki aftur um öxl.

„Mér fannst við vera aðeins á hælunum og aldrei [fyrstu fimmtán] að ná að stýra þeim í okkar varnarleik. Sóknarlega var aðeins hik á okkur, vorum alltaf að spila eitthvað vinstra megin.

Svo náðum við að koma Agga [Agnari Smára] aðeins inn í þetta og vörnin fór smám saman að stíga upp. Mér fannst Þorvaldur og Andri dálítið breyta orkunni þegar þeir komu inn, og margir aðrir sem komu inn af bekknum voru mjög góðir.

Það hefur stundum verið vesen hjá okkur, þegar við förum að rúlla höfum við misst dampinn, en mér fannst hann aukast ef eitthvað er í dag.

Svo er eitt. Það situr í FH-ingum alveg klárlega, því FH er með frábært lið, að hafa spilað áttatíu mínútur á móti ÍBV út í Eyjum á laugardaginn. Mæta svo í Valsheimilið á þriðjudegi.

Við vissum að við þyrftum að vera nálægt þeim og þá yrði þetta erfitt fyrir þá…

Varnarleikur og Björgvin skiluðu þessu í dag.“

Valsmenn hafa verið án Magnúsar Óla Magnússonar í síðustu tveimur leikjum.

„Að vinna án eins besta sóknarmannsins okkar, það er líka sterkt. Margir sem höfðu ekki trú á Valsliðinu, enda byrjuðum við illa en ég held að við séum aðeins að koma inn í þetta aftur.“

Aðeins einu stigi munar nú milli efstu fjögurra liða deildarinnar; FH, Fram, Aftureldingar og Vals, þegar sex umferðir eru eftir af deildinni.

„Við erum að berjast fyrir einhverju og það er alltaf gaman. En það er bara einn leikur í einu, ÍR á laugardaginn og það verður allt annað dæmi. Þeir hlaupa eins og vitleysingar, ungir og flottir. 

Við þurfum bara bara að henda stigum í pokann smám saman og sjá hvar við endum. Vera á góðum stað líka þegar úrslitakeppnin byrjar, við þurfum að koma aðeins fleiri gaurum inn í þetta og þá líst mér bara vel á Valsliðið,“ sagði Óskar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira