Íslenski boltinn

Sif Atla ráðin fram­kvæmda­stjóri Leik­manna­sam­taka Ís­lands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sif Atladóttir býr yfir ótrúlegri reynslu frá löngum og farsælum ferli sínum, bæði með félagsliðum heima og erlendis en einnig með íslenska landsliðinu.
Sif Atladóttir býr yfir ótrúlegri reynslu frá löngum og farsælum ferli sínum, bæði með félagsliðum heima og erlendis en einnig með íslenska landsliðinu. Getty/Alex Livesey

Leikmannasamtök Íslands segja að ráðning Sifjar Atladóttur sendi skýr skilaboð um að hagsmunir íþróttafólks á Íslandi verði áfram settir í forgang hjá samtökunum og telja að þetta sé mikilvægt skref fyrir allt íþróttafólk á Íslandi.

Leikmannasamtök Íslands hafa ráðið Sif Atladóttur sem nýjan framkvæmdastjóra samtakanna.

Sif tekur við starfinu af Kristni Björgúlfssyni, stofnanda LSÍ, sem hefur sinnt starfi framkvæmdastjóra frá stofnun þess árið 2014.

Kristinn mun áfram sitja í stjón LSÍ sem og að sinna störfum innan samtakanna. Sif var ráðin inn sem verkefnastjóri samtakanna árið 2022 og hefur sinnt margvíslegum verkefnum, og tekur nú við sem framkvæmdastjóri.

Sif hefur leikið 90 landsleiki fyrir Íslands hönd, keppt á fjórum Evrópumótum og lék í tólf ár í atvinnumennsku á erlendri grundu. Hún hefur ekki aðeins reynslu sem leikmaður heldur einnig sem öflugur talsmaður leikmanna. Árið 2020 var hún kjörin í stjórn leikmannasamtakanna í Svíþjóð þar sem hún lagði mikla áherslu á íþróttakonur og barneignir.

Sif lauk BS-gráðu í lýðheilsuvísindum frá háskólanum í Kristianstad árið 2018 og hóf nám í íþróttavísindum við háskólann í Kalmar/Vaxjö ári síðar.

Árið 2023 tók Sif sér námsleyfi frá náminu í Svíþjóð þar sem hún fékk inngöngu í nám hjá UEFA fyrir fyrrum alþjóðlega leikmenn í Sport Management (UEFA MIP Program).

Með alþjóðlega reynslu sem atvinnumaður, stjórnarmaður í leikmannasamtökum Svíþjóðar sem og þátttakandi í þessu UEFA námi hefur Sif allt sem þarf til að leiða LSÍ inn í framtíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×