Handbolti

Keyptu stærstu stjörnu Noregs af Íslendingaliðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Sander Sagosen er orðinn leikmaður Álaborgar á nýjan leik.
Sander Sagosen er orðinn leikmaður Álaborgar á nýjan leik. Aalborg Handbold

Hinn 29 ára gamli Sander Sagosen, aðalstjarna norska handboltalandsliðsins, er orðinn leikmaður danska félagsins Álaborg og gildir samningur hans til sumarsins 2029.

Vistaskipti Sagosen hafa legið í loftinu en talið var að hann færi frá norska félaginu Kolstad til Álaborgar í sumar. Danska félagið náði hins vegar að tryggja sér krafta hans strax.

Svo virðist sem að vegna meiðsla Lukas Nilsson og lyfjamáls Portúgalans Miguel Martins hafi Álaborgarar viljað bregðast skjótt við og fá Sagosen sem fyrst.

Sagosen kom til Kolstad árið 2023 og hefur í vetur verið samherji bræðranna Benedikts og Arnórs Óskarssona, Sigvalda Björns Guðjónssonar, Sveins Jóhannssonar og markvarðarins Sigurjóns Guðmundssonar. Á síðustu leiktíð framlengdi Sagosen samninginn við Kolstad til ársins 2027.

Sagosen meiddist á HM í janúar og hefur ekki spilað síðan. Hann hefur áður verið leikmaður Álaborgar því hann kom átján ára til félagsins og lék fyrir það á árunum 2014-17, en lék svo með PSG og Kiel. Með Kolstad hefur hann unnið allt sem hægt er að vinna í Noregi.

„Ég hef aldrei farið leynt með það að nokkur af bestu árunum á mínum handboltaferli voru árin sem ég átti í Álaborg. Ég á fullt af góðum minningum héðan og þess vegna er ég svo glaður yfir að fá tækifæri til að koma hingað aftur, til félagsins sem hefur vaxið síðan ég var hérna – bæði fjárhagslega og í metnaði,“ segir Sagosen á heimasíðu Álaborgar og setur stefnuna á að vinna sjálfa Meistaradeild Evrópu. Álaborg, sem er ríkjandi Danmerkurmeistari, hlaut silfurverðlaun í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×