Martins missti af afar skemmtilegu móti Portúgala sem náðu sínum besta árangri frá upphafi og töpuðu naumlega gegn Frökkum í leik um bronsverðlaun HM.
Rétt fyrir mótið setti Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, hann í bann vegna lyfjaprófs sem Martins átti að hafa fallið á. Svokallað B-sýni, sem kallað var eftir í framhaldinu, reyndist hins vegar neikvætt, sem gerist nánast aldrei, og nú krefjast Martins og forráðamenn danska félagsins Aalborg, sem Martins leikur með, skýringa.
Portúgalinn er þó að sjálfsögðu ánægður með að geta nú snúið aftur til æfinga og keppni.
„Bannið var auðvitað algjört áfall fyrir mig og síðastliðinn mánuður hefur verið ótrúlega erfiður fyrir bæði mig og fjölskyldu mína. Ég er samt óhemju glaður yfir því að B-sýnið haf sannað sakleysi mitt, sem ég hef alltaf verið viss um að yrði raunin,“ segir Martins í yfirlýsingu en hann mun ekki gefa kost á viðtali um málið að sinni.
Krefjast nákvæmra skýringa á mistökunum
Svo virðist sem að lyfjaprófið hafi verið tekið í tengslum við lokakeppni EM fyrir ári síðan. Jan Larsen, stjórnandi hjá Aalborg, furðar sig á málinu öllu í samtali við DR, þó að hann sé glaður yfir nýjustu vendingum.
„Að því sögðu þá vantar okkur nákvæmar skýringar á því hvernig það gat gerst að hann væri settur í bann, og að leikmaður geti misst af fjölda mikilvægra leikja og frábærrar upplifunar auk þess að þurfa að eiga við óhemju mikla pressu sjálfur.
Við treystum því að IHF, sem stóð að baki banninu, og WADA [alþjóða lyfjaeftirlitið] rannsaki málið og komist til botns í því, svo að svona grafalvarleg mistök endurtaki sig ekki í framtíðinni,“ sagði Larsen.
Aalborg spilar í úrslitahelgi dönsku bikarkeppninnar um helgina en þó að Martins megi spila þá verður hann ekki með enda þarf hann tíma til að komast af stað eftir bannið.