Í umfjöllun bandaríska slúðurmiðilsins PageSix um málið kemur fram að söngvarinn hafi birt myndbandið á Instagram í gær. Þar má sjá hann beran að ofan í góðu skapi að borða snakk. „Ég flýg eins og fljúgandi maður, ég flýg hátt eins og sekkjapípa, ég er í vímu eins og vondur maður,“ syngur söngvarinn meðal annars á ensku.
PageSix slær því upp að myndbandið sé athyglisvert í ljósi þess að talsmaður söngvarans hafi nýverið gefið frá sér yfirlýsingu þar sem fréttaflutningi af meintri vímuefnanotkun söngvarans og bágu andlegu ástandi hans er alfarið hafnað. Talsmaðurinn sagði að árið hefði verið söngvaranum erfitt þar sem hann hefði kvatt sambönd sem hefðu ekki lengur gagnast honum.
Hann og eiginkona hans Hailey Bieber væru á fullu að annast kornungan son þeirra Jack Bieber, sem hefði átt erfitt með að sofna. Fram kemur í umfjöllun miðilsins að sögusagnir hafi farið á kreik um bágborið ástand söngvarans eftir að myndir birtust af honum þar sem mátti sjá hann með heljarinnar bauga undir augum. Segir talsmaður söngvarans að á viðkomandi myndum hafi söngvarinn nýlokið heilli nótt í upptökuveri.