Sport

Daníel stekkur á EM í kvöld: „Legg allt í sölurnar á brautinni“

Aron Guðmundsson skrifar
Daníel Ingi Egilsson, Íslandsmethafi í langstökki
Daníel Ingi Egilsson, Íslandsmethafi í langstökki

Ís­lands­met­hafinn í langstökki, Daníel Ingi Egils­son, sér ekki eftir því að hafa tekið stökkið út til Svíþjóðar í fyrra, þó svo að dvölin þar hafi verið ein­mana­leg og árangurinn ekki eins og hann vildi. Þolin­mæði þrautir vinnur allar og í kvöld hefur hann leika á EM.

Síðasta ár var viðburðaríkt fyrir Daníel. Hann stór­bætti meðal annars þrjátíu ára gamalt Ís­lands­met Jóns Arnars Magnús­sonar í langstökki og tók síðan metnaðar­fullt og spennandi skref út til Svíþjóðar þar sem að hann æfir nú hand­leiðslu hins reynslu­mikla Yannick Tregaro sem hefur þjálfað íþrótta­fólk til gull­verð­launa á Ólympíu­leikum sem og heims- og Evrópu­meistaramótum.

„Þetta er búið að vera mjög gaman en er erfiðara sagt en gert,“ segir Daníel í sam­tali við íþrótta­deild. „Maður getur fundið fyrir smá ein­mana­leika sökum þess að búa einn þarna úti. Þar hefur maður ekki sitt hefðbundna um­hverfi og því hefur það tekið smá á og verið erfitt. Maður aðlagast þessu á endanum, þarf að gefa þessu smá tíma. Á heildina litið hefur þetta samt verið skemmti­legt og gaman. Ég sé ekki eftir að hafa gert þessar breytingar en þarf á sama tíma að gefa þessu aðeins lengri tíma og sjá hvað gerist.“

„Ég er búinn að vera í smá lægð árangurs­lega séð. Það er gott að vera með gott fólk í kringum sig sem segir að maður þurfi að gefa þessu tíma og vera þolin­móður. Sem er alveg rétt því breytingar hafa mikil áhrif á mann þó svo að maður geri sér ekki grein fyrir því.

Daníel hefur leika á Evrópumótinu innan­húss í kvöld og er vel stemmdur.

„Undir­búningurinn fyrir það er í gangi núna. Mark­miðið að gera sitt allra besta. Væri frábært að geta komist í úr­slit en ég ætla ekki að svekkja mig þótt ég komist ekki í úr­slit því að þetta er bara mitt annað stór­mót. Maður er bara rétt að byrja. Maður gerir sitt allra besta úti, leggur allt í sölurnar á brautinni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×