Erlent

Vonir bundnar við upp­götvun nýrrar virkni ó­næmis­kerfisins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vinstra megin má sjá „heilbrigða“ stafýlókokkaveiru en hægra megin hefur ytra lag hennar verið rofið af peptíðum meltikornanna.
Vinstra megin má sjá „heilbrigða“ stafýlókokkaveiru en hægra megin hefur ytra lag hennar verið rofið af peptíðum meltikornanna. Weizmann Institute of Science

Vísindamenn hafa uppgötvað áður óþekkta virkni ónæmiskerfisins, sem sérfræðingar segja mögulega „gullnámu“ nýrra sýklalyfja.

Frá þessu greinir BBC.

Um er að ræða niðurstöður rannsókna vísindamanna í Ísrael er varða svokölluð meltikorn (e. proteasome), sem finna má í öllum frumum líkamans. Meginhlutverk þeirra er að brjóta niður gömul prótín til „endurvinnslu“ en meltikornin virðast auk þess nema það þegar fruman hefur verið sýkt af bakteríu.

Komið hefur í ljós að meltikornin bregðast þá við með því að umbreyta gömlu prótíni í „vopn“, sem getur rofið ytri lög bakteríunnar og eytt henni.

„Þetta er mjög spennandi, því við vissum ekki að þetta væri að gerast,“ segir prófessorinn Yifat Merbl, við Weizmann Institute of Science. „Við höfum uppgötvað frumlega ónæmisvirkni sem veitir okkur vernd gegn bakteríusýkingum.“

Um sé að ræða nýja uppsprettu náttúrulegra sýklalyfja, sem vísindamennirnir hafa þegar prófað gegn bakteríum ræktuðum í tilraunastofu og lungnabólgu og sýklasótt í músum. 

BBC hefur eftir Daniel Davis, ónæmisfræðingi við Imperial College London, að niðurstöðurnar séu afar áhugaverðar, þar sem þær breyti skilningi manna á því hvernig líkaminn berst gegn sýkingum.

Hann segir það hins vegar munu taka tíma að nýta uppgötvunina til sýklalyfjaframleiðslu.

Lindsey Edwards, sérfræðingur í örverufræði við King's College London, segir um að ræða mögulega „gullnámu“ nýrra sýklalyfja og segir ótrúlegt að hún hafi fundist í mannslíkamanum sjálfum.

Edwards bendir enn fremur á að notkun meltikorna í lyfjaframleiðslu gæti reynst auðveldari en aðrar aðferðir í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi, þar sem þau væru þegar til staðar í líkamanum og öruggari að því leyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×