Handbolti

Lands­leik Svía og Rúmena hætt eftir svaka­legt samstuð leik­manna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúmenska landsliðskonan Sorina Maria Grozav missti meðvitund eftir slæmt samstuð í kvöld.
Rúmenska landsliðskonan Sorina Maria Grozav missti meðvitund eftir slæmt samstuð í kvöld. Getty/Alex Nicodim

Sex síðustu mínúturnar í vináttulandsleik Svía og Rúmeníu í handbolta kvenna í kvöld voru ekki spilaðar. Leik var hætt eftir að tveir leikmenn rúmenska liðsins rákust illa saman.

Rúmenska handboltakonan Sorina Grozav var að hlaupa til baka í vörn en hljóp á markvörðinn sinn sem var komin út úr markinu. Báðar voru þær að horfa á boltann.

Eftir samstuðið þá lá Grozav eftir á gólfinu en læknalið liðanna hlupu inn á völlinn henni til aðstoðar.

SVT.se

Leikmenn og starfsmenn komu líka á staðinn og sáu til þess að áhorfendur sáu ekki hvað var í gangi.

Tomas Axnér, landsliðsþjálfari Svía, sagði að Grozav hafi verið með meðvitund þegar hún var borin út úr salnum.

„Það er alltaf áhættusamt þegar markvörðurinn kemur út úr teignum. Það var virkilega sorglegt að þetta kom fyrir,“ sagði Axnér við SVT

Þegar leik var hætt þá var staðan 36-28 fyrir Svía.

„Hún missti meðvitund um tíma en leið ágætlega eftir atvikum þegar hún var flutt á sjúkrahúsið. Hún er í rannsóknum þar og bíður eftir niðurstöðunum,“ sagði Daniel Vandor, blaðamannafulltrú sænska sambandsins.

„Það eru allir í áfalli þegar svona gerist. Sem betur fer er það ekki algengt. Þetta er samt mjög óhugnanlegt,“ sagði Vandor. Aftonbladet segir frá.

„Það sá enginn tilganginn með því að halda áfram leik. Liðin töluðu saman og sættust á að hætta leik,“ sagði Vandor.

Þetta var tímamótaleikur hjá goðsögninni Jamina Roberts. Roberts varð í kvöld leikjahæsta kona sænska landsliðsins frá upphafi því hún lék í kvöld sinn 255. landsleik.

Roberts spilar númer átta og leikurinn var stöðvaður á áttundu mínútu. Hún fékk þá mikið lófaklapp frá öllum í salnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×