Innlent

Quang Le sagður hafa tekið kaup­til­boði í Herkastalann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það vakti mikla athygli þegar Quang Le festi kaup á Herkastalanum árið 2022 fyrir hálfan milljarð króna.
Það vakti mikla athygli þegar Quang Le festi kaup á Herkastalanum árið 2022 fyrir hálfan milljarð króna. Vísir

Félagið NQ fasteignir, sem er í eigu athafnamannsins Quang Le, hefur tekið kauptilboði í Herkastalann við Kirkjustræti. Kaupandinn er ónefnt fasteignafélag og kaupverðið liggur ekki fyrir.

Frá þessu greinir Morgunblaðið og segir húsnæðið metið á rúmar 575 milljónir króna.

Þá er haft eftir Guðmundi Hallgrímssyni, fasteignasala hjá Lind, að fyrirvarar séu á kauptilboðinu.

Quang Le komst í fréttirnar eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglu gegn fyrirtækjum í hans eigu en hann er meðal annars grunaður um að hafa stundað mansal. Þá vakti mikla athygli þegar hann tók sér nafnið Davíð Viðarsson, eftir manni sem hefur verið skráður faðir barna Quang Le í hálfan annan áratug.

Sex félög í eigu Quang Le hafa verið úrskurðuð gjaldþrota en tvö ekki; NQ fasteignir og Víetnam Market.

Greint hefur verið frá því að um 30 ætlaðir þolendur mansals af hálfu Quang Le búi nú við mikla óvissu, þar sem aðeins nokkrir mánuðir séu eftir af gildistíma dvalarleyfa þeirra hérlendis. Umræddir einstaklingar störfuðu hjá fyrirtækjum í eigu Quang Le.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×