Erlent

Eldur í olíuflutningaskipi eftir á­rekstur við flutninga­skip í Norður­sjó

Kjartan Kjartansson skrifar
Kort sem sýnir staðsetningu áreksturs flutningaskipanna undan ströndum Hull á austurströnd Englands.
Kort sem sýnir staðsetningu áreksturs flutningaskipanna undan ströndum Hull á austurströnd Englands. Vísir/Getty

Meiriháttar björgunaraðgerð er nú í gangi í Norðursjó undan ströndum austanverðs Englands eftir að olíuflutningaskip og fraktskipt rákust þar á. Eldur logar í báðum skipum og fjölda skipverja er enn saknað.

Tilkynning um áreksturinn barst bresku strandgæslunni skömmu fyrir klukkan tíu í morgun. Hann átti sér stað undan ströndum Englands við hafnarborgina Hull sem er um 250 kílómetra norður af London.

Talið er skipin sem rákust á séu bandaríska efna- og olíuflutningaskipið MV Stena Immaculate og portúgalska flutningaskipið Solong. Svartur reykur er sagður sjást stíga upp frá báðum skipum. 

Björgunarskip og þyrlur leita nú skipverja í sjónum. The Guardian segir að um fjörutíu skipverjar hafi verið á skipunum tveimur samtals. Þrjátíu og tveir hafi verið fluttir í land í Grimsby en óljóst sé með ástand þeirra. Enn sé fjölda skipverja saknað.

AP-fréttastofan segir að samkvæmt vefsíðum sem fylgjast með skipaferðum hafi bandaríska olíuflutningaskipið legið við akkeri en flutningaskipið hafi verið á leið frá Grangemouth í Skotlandi suður til Rotterdam í Hollandi. 

From Marine Traffic, here's the moment of the crash between the oil tanker MV Stena Immaculate and a cargo vessel MV Solong. Live updates here www.theguardian.com/uk-news/live...

[image or embed]

— Eliot Higgins (@eliothiggins.bsky.social) March 10, 2025 at 1:08 PM

Stena Immaculate er í eigu sænska skipafyrirtækisins Stena og er sagt eitt tíu sem sér um að flytja olíu fyrir Bandaríkjaher á stríðstímum. Það var á leið frá Grikklandi til Killingholme í Bretlandi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Olíuflutningaskipið er 183 metra langt, 32 metra breitt og rúmlega 29.800 brúttótonn samkvæmt vefsíðu Stena.

Breska veðurstofan hafði varað við þoku og slæmu skyggni á slysstaðnum í morgun, að sögn Sky-sjónvarpsstöðvarinnar.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×