Erlent

Gamall mafíuforingi skotinn til bana í Grenoble

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Hinn látni er sagður hafa verið alræmdur í undirheimum Grenoble á síðustu öld.
Hinn látni er sagður hafa verið alræmdur í undirheimum Grenoble á síðustu öld. Getty

Lögregluyfirvöld í Frakklandi rannsaka skotárás sem gerð var á 71 árs gamlan fyrrverandi mafíuleiðtoga á hraðbraut nærri borginni Grenoble í morgun. 

Franskir blaðamenn segja hinn látna, Jean-Pierre Maldera, hafa verið „guðföður“ mafíunnar á svæðinu á níunda áratug síðustu aldar. Honum hafi verið veitt eftirför er hann ók um hraðbrautina í morgun. Loks hafi hann verið skotinn til bana. BBC fjallar um málið. 

Árásarmennirnir, þrír eða fjórir talsins, hafi flúið vettvang á stolnum Renault bíl og skilið hann eftir á bílastæði í Grenoble, hvar hann fannst skömmu síðar.

Tíu ár eru síðan tilkynnt var um hvarf yngri bróður Jean Pierre, Robert Maldera. Sá hafi einnig verið mafíuleiðtogi og borið viðurnefnið „madman“ í undirheimum Grenoble.

Í umfjöllun franska miðilsins Le Dauphiné Libéré segir að Maldera hafi stigið út úr bílnum sínum á miðjum vegi og reynt að hlaupa frá árásarmönnunum, sem skutu hann til bana. 

Maldera bræðurnir eru sagðir hafa gegnt lykilhlutverki í hinni svokölluðu Italo-Grenoblois mafíu á níunda og tíunda áratug síðusu aldar. Árið 2004 voru þeir fundnir sekir fyrir skipulagða glæpastarfsemi en voru ári síðar látnir lausir. Í frétt BBC segir þó að sakaskrá þeirra bræðra teygi sig marga áratugi aftur í tímann. 

Ekki liggur fyrir hvort Maldera hafi átt þátt í skipulagðri glæpastarfsemi í aðdraganda árásarinnar en frönsk yfirvöld höfðu þá ekki haft afskipti af honum svo árum skipti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×