Erlent

Rúss­neskur skip­stjóri á­kærður fyrir skipaáreksturinn ban­væna

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Miklar skemmdir eru á MV Stena Immaculate. 36 voru um borð í skipinu. Einn var fluttur á spítala.
Miklar skemmdir eru á MV Stena Immaculate. 36 voru um borð í skipinu. Einn var fluttur á spítala. Vísir/EPA

Skipstjóri fraktskipsins Solong hefur verið ákærður og farið fyrir dóm í Hull í Englandi. Skipið sigldi á efna- og olíuflutningaskipið Stena Immaculate í Norðursjó fyrr í vikunni með þeim afleiðingum að einn áhafnarmeðlimur Solong lést.

Vladimir Motin er rússneskur maður á sextugsaldri og var skipstjóri Solong. Hann fór fyrir dómara í Hull í morgun en hann var handtekinn í vikunni grunaður um manndráp af gáleysi. Mark Angelo Pernia, Filippseyingur á fertugsaldri lést í kjölfar áreksturs skipanna. Öllum öðrum áhafnarmeðlimum skipanna beggja, 36 talsins, var bjargað.

Frakskipið Solong skall á efna- og olíuflutningaskipið MV Stena Immaculate sem lá við akkeri út fyrir strönd Englands. Bæði skip urðu fyrir talsverðu tjóni og svartur reykur steig upp úr báðum skipum. Sprengingar glumdu þegar eldur barst að tönkum fullum af þotueldsneyti sem lekur nú út í Norðursjó.

Stena Immaculate siglir undir bandarískum fána og liggur enn við akkeri út fyrir Hull þar sem slysið varð, um tuttugu kílómetrum úti fyrir Austur-Jórvíkurskíri. Skipið bar þotueldsneyti fyrir bandaríska herinn og var á leið frá Skotlandi til Rotterdam í Hollandi þegar áreksturinn varð. Strandgæsla Englands segir bæði skip í stöðugu ástandi.

„Nú eru bara stöku eldsvoðar stundum á Solong sem valda okkur ekki miklum áhyggjum,“ segir hann í samtali við breska miðilinn Guardian og bætir við að sérútbúnir slökkviliðsbátar séu við akkeri í nágrenni skipsins, tilbúnir til að bregðast við breiði eldurinn úr sér á nýjan leik.


Tengdar fréttir

Fraktskipið flutti gáma fyrir Samskip Multimodal

Fraktskipið Solong sem skall á efna- og olíuflutningaskipið Stena Immaculate flutti gáma fyrir Samskip Multimodal. Árekstur skipanna varð úti fyrir Hull á Englandi í morgun og olli miklu tjóni.

Eins skipverja enn leitað og mikið umhverfisslys í uppsiglingu

Fraktskipið portúgalska Solong sem rakst á efna- og olíuflutningaskipið Stena Immaculate í Norðursjó var með 15 gáma af natríumblásýrusalti um borð. Bæði skip urðu fyrir talsverðu tjóni við áreksturinn og eins áhafnarmeðlims Solong er enn leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×