Íslenski boltinn

„Stærsta í þessu er ef Rúnar Már nær að spila meira“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson kom til ÍA fyrir síðasta tímabil eftir áralanga dvöl í atvinnumennsku. Hann spilaði hins vegar einungis tíu leiki í Bestu deildinni.
Rúnar Már Sigurjónsson kom til ÍA fyrir síðasta tímabil eftir áralanga dvöl í atvinnumennsku. Hann spilaði hins vegar einungis tíu leiki í Bestu deildinni. vísir/arnar

Albert Ingason, sérfræðingur Stúkunnar, telur að ÍA geti barist um Evrópusæti, annað árið í röð. Miklu máli skipti ef Rúnar Már Sigurjónsson getur spilað meira en í fyrra.

ÍA er spáð 6. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2. Skagamenn lentu í 5. sæti á síðasta tímabili, þá sem nýliðar.

„Ég held þeir verði í svipaðri baráttu í ár. Ég held að þeir verði í þessum pakka að komast í efri hlutann og mögulega, ef allt gengur upp, vera í Evrópubaráttu allt til enda,“ sagði Albert. 

„Þeir hafa ekki fengið marga leikmenn inn en það stærsta í þessu er ef Rúnar Már nær að spila fleiri leiki en á síðasta tímabili styrkir hann liðið mikið. Hann byrjaði bara fjóra leiki á síðasta tímabili þannig ef hann spilar í kringum tuttugu leiki bætir það liðið mikið. Auðvitað er högg fyrir þá að missa Hinrik [Harðarson]. Hann skoraði sjö mörk og lagði einhver upp en hann opnaði líka helling fyrir Viktor [Jónsson]. Ómar Björn [Stefánsson] kemur þarna inn. Hann er líka öflugur leikmaður en það munar um Hinrik, alveg klárlega.“

Albert segir að einkenni Skagamanna séu skýr og það sé styrkleiki liðsins.

„Hvað þeir þekkja sín takmörk og hvað þjálfarinn [Jón Þór Hauksson] kann á sína leikmenn, leikkerfið og hvernig liðið er „drillað“. Auðvitað er Deano [Dean Martin styrktarþjálfari] með liðið og það er alltaf í formi. Þannig ég held að styrkleikinn sé hvernig liðið er uppsett og í hvernig standi það er,“ sagði Albert.

ÍA sækir Fram heim í fyrsta leik sínum í Bestu deildinni sunnudaginn 6. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×