Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar var haldin á Hótel Örk í Hveragerði á fimmtudaginn þar sem á annað hundrað eigendur eða starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja mættu til að hlusta á erindi og taka þátt í umræðu um stöðu ferðaþjónustunnar í dag.
Pétur Óskarsson er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
„Það eru blikur á lofti. Farþegatölurnar fyrstu mánuði ársins eru niður á við. Það er aðeins minnkandi áhugi á Íslandi á leitarvélum og samfélagsmiðlum þannig að við höfum auðvitað áhyggjur af stöðunni. Þetta eru kannski ekki stórar tölur, þrjú til fimm prósent, sem eru niður miðað við árið í fyrra,” segir Pétur og bætir við.
„Fimm prósent samdráttur í ferðaþjónustu er eins og ein loðnuvertíð þannig að það er bara mjög alvarlegt og stórt mál ef að það yrði niðurstaðan.”
En hver er ástæðan að mati Péturs fyrir fækkun ferðamanna til landsins?
„Ég held að það veigi auðvitað mjög þungt verðlag á ferðum til Íslands samanborið til dæmis til Noregs eða Finnlands. Lítil markaðssetning síðustu ár á Íslandi, svona almenn markaðssetning. Finnar og Norðmenn okkar helstu samkeppnis þjóðir hafa verið mjög öflugir í þessu og við höfum ekki gert neitt eða mjög lítið,” segir Pétur.

En hvernig leggst sumarið í Pétur og hans fólk í ferðaþjónustunni?
„Sumarið leggst náttúrulega alltaf vel í okkur því það er þá, sem stærsti hluti af veltunni kemur í hús hjá mjög mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum en afkoman byggist á því að okkur takist að nýta allar fjárfestingar í greininni allt árið um kring. Þannig að gott sumar dugar ekki, við þurfum líka að fá góðan vetur og þurfum að fá réttu gestina hingað til lands, sem ferðast um allt landið, sem er eitt af stóru markmiðunum hjá okkur að Ísland, landið allt árið.”
