Latibær varð til í Borgarnesi hjá Magnúsi Scheving einum af höfundi verksins en nokkur áhugamannaleikfélög víðs vegar um landið hafa sett verkið upp. Nú er það Leikfélag Keflavíkur en leikstjórinn þar er Brynja Ýr en hún er ekki bara leikstjóri.
„Heyrðu, ég er í miðasölunni líka og ég er líka formaður félagsins og þá bara fer maður í öll hlutverk,” segir Brynja.
Þetta er ótrúlega vel gert?
„Já, þetta er mikill metnaður enda bara já, góð manneskja í öllum störfum hjá okkur, fullkomin manneskja þannig að við erum mjög lánsöm hérna með alla, baksviðs líka,” segir hún enn fremur.
Brynja Ýr segist vera með frábæran leikarahóp í verkinu, fólk á öllum aldri og það sé mikill metnaður í sýningunni hvað varðar búninga, tónlist og allt, sem fylgir góðri leiksýningu. Aðsóknin hefur verið glimrandi góð, uppselt á fleiri, fleiri sýningar og allir hæstánægðir með viðtökurnar á Latabæ hjá leikfélaginu.
„Og það er mjög skemmtilegt að sjá krakka í búning á sýningum, til dæmis sem Solla stirða og íþróttaálfurinn. Það er virkilega gaman að fylgjast með þessu,” bætir Brynja við.

Og Latibær er greinilega að slá í gegn í Keflavík eða hvað?
„Já algjörlega, vonandi heldur leikritið áfram að slá í gegn. Við erum mjög ánægð hingað til allavega,” segir Brynja Ýr, formaður Leikfélags Keflavíkur.

Hér er hægt að kaupa miða á leikritið hjá Leikfélagi Keflavíkur