Þórarinn Eyfjörð segist sjálfur ekki hafa beðið um þessa upphæð heldur hafi stjórnin lagt fram tillögu um samning sem hún rökstuddi með því að skuldbinding félagsins næði til kjörtímabilsins í heild. Heildarupphæð vegna samningsins er tæplega sjötíu milljón krónur sem félagið mun greiða Þórarni.
Sjá einnig: Ekki hægt að segja félagslega kjörnum formanni upp
Stjórn Sameykis segir að samkvæmt lögum félagsins sé ekki hægt að segja félagslega kjörnum formanni upp störfum. Að fengnu lögfræðiáliti og með aðkomu sáttamiðlara varð tæplega sjötíu milljón króna starfslokasamningur niðurstaðan.
Stjórnarinnar að svara
Þórarinn segir að tillaga stjórnar hafi komið honum í opna skjöldu.
„Þetta var eitthvað sem þau höfðu unnið og það er þeirra að svara fyrir það hvernig sú vinna fór fram. En allavega var niðurstaðan þessi að þetta var kynnt mér og eftir nokkra íhugun ákvað ég að taka því,“ segir hann.
Þórarinn segir að starfslokasamningurinn hafi verið mikið til umræðu á aðalfundi félagsins en án einhlítrar skoðunar.
Hefurðu mætt mikilli gagnrýni?
„Ég túlka það ekki svo. Ég held að þau sem að sitji aðalfund Sameykis hérna er fólk sem ég er búinn að vera að vinna með í áratugi. Ég er búinn að vinna fyrri félagið í 32 ár að ýmsum flóknum, erfiðum og góðum verkefnum. Þeir kjarasamningar sem félagið er búið að gera á undanförnum árum hafa verið góðir svo ekki sé meira sagt. Ég held að flestir hérna á aðalfundinum þekki til minna verka og hafa ekki verið að gera neinar athugasemdir,“ segir Þórarinn.
Fólk geti haft alls konar skoðanir
Hann segist ekki líta á samninginn sem uppgjör fyrir vel unnin störf. Hann hefði heldur unnið áfram í þágu félagsins en mat það svo að best væri fyrir félagið og framtíð þess að ganga að tilboði stjórnarinnar.
Finnst þér skiljanlegt að sumum blöskri samningurinn?
„Ég held að fólk geti haft alls konar skoðanir á því og ég geri ekki neinar athugasemdir við það,“ segir Þórarinn.
„Ég held að það hljóti að vera að stjórnin hafi farið vandlega í gegnum það hvað hún var að bjóða og að hún hafi komist að þeirri niðurstöðu eftir þá skoðun sem hún fór í,“ segir hann.