Friðrik fæddist í Reykjavík 26. janúar 1935 og því nýlega orðinn níræður þegar hann lést á líknardeild Landspítalans, fjórða apríl síðastliðinn. 1958 varð hann fyrsti Íslendingurinn til að verða stórmeistari í skák og árin eftir átti hann eftir að vinna fjölda alþjóðlegra móta. Árið 1959 var hann einn af átta þátttakendum á áskorunarmót fyrir Heimsmeistaratitilinn en endaði þar sjöundi. Á ferlinum vann hann til að mynda Bobby Fischer tvisvar, Mikhail Tal tvisvar og Karpov einu sinni þegar hann var ríkjandi heimsmeistari.
Vísir ræddi ítarlega við Friðrik um ferilinn í janúar á þessu ári. Lesa má viðtalið í fréttinni hér fyrir neðan.
Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands segir Friðrik þann merkasta í íslenskri skáksögu.
„Hann var svo mikill frumkvöðull. Hann byrjar að tefla sem ungur strákur, og nær í þessu litla landi með erfiðar aðstæður til að ferðast að verða einn af tíu bestu í heiminum,“ segir Gunnar. „Ég held að heimsmeistaraeinvígið 1972 hefði ekki verið haldið hefði hann ekki verið þarna. Þótt að fleiri hafi auðvitað komið að því, þá bjó hann til þessa skákbylgju, hann bjó til þennan skákáhuga. Það er ekki víst að svona sterkir skákmenn hafi orðið til hérna á Íslandi ef hann hefði ekki rutt veginn.“

Árið 1978 varð hann sjötti forseti Alþjóðaskáksambandsins og hafði því einnig mikil áhrif á skákhreyfinguna í öllum heiminum. Friðrik var skrifstofustjóri Alþingis í rúm tuttugu ár og ritstýrði einnig lagasafni Íslands.
„Honum var margt til lista lagt. Fyrir mér var þetta ótrúlegur einstaklingur og sá merkasti sem ég hef nokkurn tímann kynnst,“ segir Gunnar.