Ríkisstjórnin kynnti í vikunni úrbætur í þjónustu fyrir einstaklinga sem þurfa að sæta sérstökum öryggisráðstöfunum. Fram kom í tilkynningu Stjórnarráðsins að málefni slíkra einstaklinga hefðu fallið milli þjónustukerfa ríkis og sveitarfélaga. Fjölga á plássum á réttaröryggisdeild um átta og koma á fót sérstakri öryggisstofnun fyrir hópinn.
„Þar verður tekið heildstætt á öllum öryggisvistunarmálum. Eins og er geta einstaklingar verið í öryggisvistun á vegum sveitarfélaganna. Oft í dýrum úrræðum. Það er afar mikilvægt að taka heildstætt um þennan málaflokk, það snýst um öryggi borgaranna, mannréttindi þessara einstaklinga og það snýst um hagræðingu,“ segir Alma Möller heilbrigðisráðherra.
Hún segir að búist sé við að hægt sé að bjóða upp á fleiri pláss á réttaröryggisdeild um áramótin. Ekki sé komin dagsetning á hvar, hvernig eða hvenær sérstök öryggisstofnun verður tilbúin.
Gríðarlegur kostnaður
Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum í dag frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um hvað málaflokkurinn kosti þau í heild og fékk þau svör að málið sé gríðarlega umfangsmikið en heildarkostnaður liggi ekki fyrir.
Þetta sé flókin skipting og missjöfn . Það hafi aldrei náðst heildarniðurstaða í samtal ríkis og sveitarfélaga í málinu.
Í umfjöllun fjölmiðla hefur komið fram að það kostar ríflega tvö hundruð milljónir á ári að vista einn einstakling í öryggisvistun í Reykjavík.
Þá er útlagður kostnaður Mosfellsbæjar vegna öryggisvistunar tveggja einstaklinga tæpar hundrað og níutíu milljónir, sjötíu milljónir fást endurgreiddar frá hinu opinbera, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.
Stjórnvöld þurfi að hafa hraðar hendur
Hvort gríðarmikill kostnaður vegna málaflokksins hafi svo valdið því að einstök mál hafa fallið milli þjónustukerfa á liðnum árum eins og kom fram í tilkynningu Stjórnarráðsins skal ósagt látið.
Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu segir hins vegar að koma hefði mátt í veg fyrir harmleik eins og í Neskaupstað og morðmál í Breiðholti á síðasta ári hefðu þau úrræði sem nú hafa verið kynnt verið til staðar.
„Við höfum verið að ýta á svona úrræði í langan tíma. Við höfum varað við málum þar sem hræðilegir atburðir gerðust svo af því rétt þjónusta var ekki í boði. Það hefði því mátt koma í veg fyrir mikinn harmleik á undanförnum misserum ef eitthvað í líkingu sem nú hefur verið kynnt hefði hefði verið komið. Það er því ekki annað hægt en að fagna áformum ríkisstjórnarinnar,“ segir Guðmundur.
Stjórnvöld þurfi hins vegar að hafa hraðar hendur.
„Það eru á annan tug einstaklinga sem eru á götum borgarinnar sem þyrftu að komast í svona úrræði strax. Þeir eru tifandi tímasprengjur. Þetta eru menn sem við höfum varað við að fái þeir ekki viðeigandi aðstoð muni þeir lenda í aðstæðum sem þeir ráða ekki við,“ segir Guðmundur.